Móberg ehf hefur keypt rekstur hönnunarfyrirtækisins WEDO og samþætt reksturinn inn í eigið hugbúnaðarfyrirtæki Expertia ehf. sem mun nú sækja fram undir merkjum WEDO ehf.
„Sameiningin renndi styrkari stöðum undir þá starfsemi sem við vorum með fyrir og erum nú alhliða hugbúnaðarfyrirtæki sem getur sinnt stærstu og kröfuhörðustu viðskiptavinum sem oft vilja hafa fram- og bakendaþróun auk hönnunar í hæsta gæðaflokki hjá sama þjónustuaðila,“ segir Jóhann Kristjánsson, framkvæmdastjóri WEDO ehf., í tilkynningu.
„Hjá félaginu starfa nú rúmlega 20 manns og við vöxum hratt. Við höfum í sameiningarferlinu styrkt innri verk- og gæðaferla starfseminnar með skarpan fókus á að veita gæðaþjónustu frá hugmyndahönnun til afhendingar fullunninar afurðar. Það skapar okkur spennandi samkeppnisstöðu á íslenska hugbúnaðarmarkaðnum að hafa þróunardeild í Zagreb í Króatíu nú þegar búið er að slípa til verkferla,“ segir ennfremur í tilkynningu.
Þá segir, að WEDO muni á nýju ári sækja fram á markaðinn sem öflugt hugbúnaðar- og hönnunarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni, með höfuðstöðvar í Reykjavík og starfsstöð í Króatíu. Kjarnastarfsemin sé hugbúnaðarþróun, samþætting og þróun fjármála- og greiðslulausna og framendalausnir fyrir fyrirtæki sem vilji ná sem mestri hagnýtingu gegum upplýsingatæknina og veita þjónustu gegnum vef, snjallsíma og spjaldtölvur.
WEDO hefur undanfarið unnið fjölmörg verkefni fyrir aðila á borð við Bland.is, Netgíró, Betware, Almenna Lífeyrissjóðinn, Hun.is og Heimkaup.is, svo einhverjir séu nefndir.
Framkvæmdastjóri WEDO er Jóhann Kristjánsson, en hann er með meistarapróf
í alþjóðaviðskiptum frá CBS og hefur víðtæka stjórnendareynslu úr tækni- og fjármálageiranum bæði hérlendis og erlendis. Síðustu ár hefur Jóhann starfað við þróun og upplýsingatækni hjá Danske Bank í Kaupmannahöfn. Jóhann er giftur Hildi Ingu Björnsdóttur, myndlistarkonu og hönnuði, og á fjögur börn.