Þjónusta Uber svínvirkar

Notendur Uber láta vel af þjónustunni.
Notendur Uber láta vel af þjónustunni. Sverrir Vilhelmsson

Skiptar skoðanir eru um ágæti leigubílaþjónustunnar Uber sem lauk á dögunum að safna nægum undirskriftum til þess geta hafið starfsemi hér á landi. Mbl.is ræddi við nokkra sem hafa reynslu af þjónustunni.

Erla Ósk Ásgeirsdóttir notaði þjónustuna töluvert á meðan hún bjó í New York í haust og segir aðferðarfræði fyrirtækisins frábæra. Hún segir það stóran kost að geta séð í Uber appinu hvar næsti bíll sé staðsettur og fylgst nákvæmlega með hversu langt sé í hann, auk þess sem hægt sé að fylgjast með bílnum á leiðinni. Annan kost segir hún vera að hægt sé að ganga frá greiðslunni í gegnum appið.

Verðið ræðst af eftirspurn

Aðspurð hvort hún hafi lent í einhverjum vandræðum með þjónustuna segir hún svo ekki vera. „Stundum valdi ég þó að taka hefðbundinn leigubíl vegna þess að verðið hjá Uber hafði hækkað vegna aukinnar eftirspurnar. Verðið ræðst að framboði og eftirspurn bíla og getur því hækkað og lækkað,“ segir hún. „Ef verðið er hátt er hægt að fylgjast með verðbreytingum í appinu og fá upplýsingar þegar verðið lækkar og panta þá bíl á viðráðanlegu verði,“ segir Erla.

Þá segist hún ekki hafa upplifað óöryggi um borð í bílunum né heldur hafi hún orðið vör við vantraust annarra gagnvart þjónustunni. „Bílarnir eru merktir og hægt er að fylgjast með þeim í appinu. Síðan geta farþegar gefið bílstjórunum einkunn og bílstjórar geta einnig gefið farþegunum einkunn á móti. Þannig er hægt að sneiða hjá bílstjórum með lélega einkunn,“ segir hún og bætir við að þjónustan líkist helst Tripadvisor í ferðageiranum. Aðspurð hvort hún telji þjónustuna eiga erindi til Íslendinga segir hún: „Ekki spurning. Því meiri samkeppni, því betra. Svo eru kostir Uber ótvíræðir vegna upplýsinganna sem er að finna í appinu og hins nýstárlega greiðslumáta sem hentar snjallsímaeigendum vel,“ segir Erla.

Teknir úr umferð ef einkunnin er léleg

Alexander Freyr Einarsson notaði þjónustuna óspart þegar hann var í hagfræðinámi í Bandaríkjunum. Hann segir Uber vera skilvirka og þægilega leið þar sem þú einfaldlega pantar bíl í gegnum appið. Þá veistu nafn og staðsetningu bílstjórans. „Þetta gekk mjög fljótt fyrir sig og bílstjórarnir voru með eindæmum kurteisir og almennilegir,“ segir hann. Líkt og Erla, segir hann bílstjórana treysta á einkunnagjöfina. „Málið er að bílstjórarnir fá einkunn, stjörnur, og ef þeir lenda undir fjórum stjörnum eða fjórum og hálfri af fimm tekur fyrirtækið þá úr umferð,“ segir hann. „Þeir hafa því mikinn hvata til að standa sig vel og gera það svo sannarlega, annars missa þeir einfaldlega starfið. Þetta kerfi svínvirkar,“ segir hann og bætir við að honum finnist sem enginn slíkur hvati sé til staðar hjá íslenskum leigubílstjórum.

Hann segir þetta öruggan ferðamáta og bendir á að fyrirtækið sjái til þess að bílstjórarnir séu hæfir og almennilegir. „Þetta var mun nær því að vera með sinn eigin einkabílstjóra heldur en að vera að taka leigubíl,“ segir hann. Eina gallann segir hann mögulega hafa verið að bílstjórarnir hafi ekki alltaf verið með staðsetningar á hreinu og þar sem hann var í Kaliforníu hafi þeir stundum verið að koma frá bæjum sem voru í tuttugu til þrjátíu mínútna fjarlægð.

Getur hætt við ferðina

Alexander telur íslenska neytendur vera komna með nóg af því okrinu sem á sér stað á íslenskum leigubílamarkaði. „Þess vegna eru síður eins og Facebook hópurinn „Skutlarar“ svona vinsælar,“ segir hann. „Það er alveg ástæða fyrir því að fyrirtækinu gengur svona svakalega vel, það er alger vöntun á þessa þjónustu og hún er góð,“ segir Alexander.

Jón Axel Svavarsson, sem notaði þjónustuna í Prag í Tékklandi og Vín í Austurríki, bendir á að viðskiptavinir geti hætt við ferðina eftir að hafa fengið upplýsingar um bílstjórann, lítist þeim ekki á blikuna. Hann segist ekki hafa lent í neinum vandræðum með þjónustuna og voru þetta einu leigubílarnir sem hann notaði í Prag. „Allt gekk eins og svissneskt úr,“ segir hann. Þá segir hann að bílstjórarnir hjá hótelinu í Prag hafi ekki hrifnir af Uber „en mig grunar að það sé vegna þess að Uber var u.þ.b. þrisvar sinnum ódýrari en þeir. Og í flestum tilfellum með flottari bíla,“ segir hann.

Ástgeir Þor­steins­son, formaður bif­reiðastjóra­fé­lags­ins Frama, sagði í gær í samtali við mbl.is að auk­in glæp­a­starf­semi ásamt svindli á farþegum gæti fylgt leigu­bílaþjón­ust­unni, komi hún til lands­ins. „Hver ætl­ar að fylgj­ast með þegar Pét­ur og Páll eru að sjá um akst­ur­inn?“ spurði hann. Magnús Sigurbjörnsson, sem notaði þjónustuna í Tékklandi á dögunum, segir einkunnagjöf farþegans vera líflínu bílstjóranna. „Leigubílstjórar sem reyna að bjóða manni upp á fíkniefni eða gera sig líklega til kynferðislegs áreitis munu líklega ekki fá góða einkunn frá farþeganum og þá útilokar Uber þá bílstjóra úr kerfinu,“ segir hann.

Ekki gert ráð fyrir þjónustunni í lögum

Upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, Þórhildur Elínardóttir, sagði í gær í samtali við mbl.is að ekki væri gert ráð fyr­ir þjón­ustu sem Uber sam­kvæmt nú­gild­andi lög­um um leigubifreiðar. „Lög­in snú­ast um leyf­is­skyld­an at­vinnuakst­ur þar sem bæði leigu­bíla­stöð og bíl­stjóri þurfa að upp­fylla til­tek­in skil­yrði og hafa fengið út­hlutuðu leyfi,“ sagði hún

Til þess að aðlaga þjón­ust­una að ís­lensk­um lög­um þyrftu for­svars­menn Uber að fá leyfi sem leigu­bif­reiðastöð og all­ir bíl­stjór­ar þjón­ust­unn­ar að fá út­hlutað leyfi til leigu­bif­reiðaakst­urs.

Formaður bifreiðstjórafélagsins Frama telur Uber vera óöruggan ferðamáta.
Formaður bifreiðstjórafélagsins Frama telur Uber vera óöruggan ferðamáta. Jim Smart
Hægt er að panta bíl í gegnum Uber appið og …
Hægt er að panta bíl í gegnum Uber appið og fylgjast með honum á leiðinni. AFP
Uber þjónustan er til staðar á öllum Norðurlöndunum utan Íslands.
Uber þjónustan er til staðar á öllum Norðurlöndunum utan Íslands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK