Ekkert lánshæfismat og ekki neitað

Hægt er að fá lánaðar allt að 100 milljónir hjá …
Hægt er að fá lánaðar allt að 100 milljónir hjá fyrirtækinu Kaupum gull. Morgunblaðið/Kristinn

Hjá veðlánafyrirtækinu Kaupum gull er hægt að fá lánaðar allt að 100 milljónir króna gegn tryggingu í skartgripum, húsgögnum eða ýmsu öðru. Eigandinn segir meðallánið nema um 100 þúsund krónum og nær hæsta lánið ekki tíu milljónum króna.

Lánið er veitt til þriggja mánaða á 4,5% vöxtum á mánaðargrundvelli. Vextirnir koma mánaðarlega til greiðslu og endurnýjast lánið við hverja vaxtagreiðslu. Við fyrstu greiðsluna er lánið því aftur orðið til þriggja mánaða og hægt er að halda þessu áfram uns lántaki á þess kost að greiða lánið til baka að fullu en það er gert í einni greiðslu. Að sögn Sverris Eiríkssonar, eiganda Kaupum Gull, er þetta gert til að lánin samrýmist lögum um neytendalán, en samkvæmt lögunum mega þau ekki vera til lengri tíma en þriggja mánaða.

Hirða hlutinn eftir tveggja mánaða vanskil

Ef vanskil verða á vöxtunum í tvo mánuði er lánið gjaldfellt og hluturinn sem settur var að veði er hirtur. „Þá ertu laus allra mála,“ segir Sverrir. „Jafnvel þótt þú hafir fengið lánaðar 100 þúsund krónur og ég nái ekki að selja hlutinn fyrir nema 80 þúsund.“

Sverrir hóf að bjóða upp á veðlánin á síðasta ári og segir eftirspurnina vera stígandi. Auk veðlánanna kaupir Sverrir einnig gull, listaverk og hönnunarhúsgögn og kemur þeim í verð. Gullið lætur hann bræða og selur á heimsmarkaði.

Telur starfsemina jákvæða

Hann segir hugmyndina að veðlánunum hafa komið upp eftir að hafa tekið eftir því að fólk vildi oft ekki selja hlutina sem það var að koma með. „Þá hugsaði ég með mér að það væri nú betra að fá lánað út á þetta og fólk hefði þá kost á að koma aftur og sækja hlutinn,“ segir hann. Sverrir hafði efasemdir um starfsemi sem þessa í upphafi en segist hafa skipt um skoðun og telur hana nú af jákvæðum toga. „Þarna getur fólk komið og fengið lán með skömmum fyrirvara út á verðmæti í sinni eigu. Það er sveigjanlegt hvenær þú leysir út gripinn og ef þú sækir hann ekki endar það þar. Þú lendir ekki í vítahring lögfræðibréfa og leiðinda ef eitthvað breytist,“ segir hann.

Vesen að fara í bankann

Ekkert lánshæfis- eða greiðslumat fer fram við lántökuna þar sem Sverrir segist vera með örugga tryggingu í eigum lántakenda. Aðspurður hvort það séu ekki helst þeir sem ekki standast hefðbundið lánshæfismat sem sæki í lánin segist hann ekki vita það. „Ég spyr ekki mikið út í það en fólk er gjarnan að koma í lok mánaðarins þegar því vantar pening. Ég fletti fólki ekkert upp en væntanlega er það þannig,“ segir hann. „Svo getur það líka verið vesen að fara í bankann og sækja um yfirfrátt. Loksins þegar þú færð svar ertu kannski dáinn úr hungri,“ segir Sverrir.

Aðspurður hvernig hann standi undir lánastarfseminni segist hann nota til þess eigið fé. Hann hefur aldrei þurft að neita neinum um lán, sé fólk með rétta tryggingu, og segir að það muni ekki koma til þess.

Auglýsing um veðlánin.
Auglýsing um veðlánin.
Ekkert lánshæfismat fer fram við lántökuna og er fólki aldrei …
Ekkert lánshæfismat fer fram við lántökuna og er fólki aldrei neitað um lán. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK