„Það er enginn að selja neitt“

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Kaupendur okkar eru bara í sömu stöðu og við. Þeir sitja bara á þeim birgðum sem þeir eiga og eru ekki að selja neitt. Það er enginn að selja neitt, það eru bara öll viðskipti orðin stopp. Ég myndi ekki gera ráð fyrir að það gerist mikið fyrr en eftir rússnesku jólin og áramótin.“

Þetta segir Teitur Gylfason, sölustjóri uppsjávarfisks hjá Iceland Seafood, í samtali við mbl.is en í kjölfar mikils gengisfalls rússnesku rúblunnar gagnvart Bandaríkjadal hafa hérlendir fiskútflyjendur haldið að sé höndum vegna útflutnings til Rússlands. Íslensku fyrirtækin fá allajafna greitt í dollurum en gengisfall rúblunnar má einkum rekja til mikillar lækkunar heimsmarkaðsverðs á olíu. Teitur segist þannig ekki reikna með að mikið gerist í þessum málum þar til í kringum 12. janúar þegar Rússland fari í gang aftur.

„Það eina sem við getum gert er að vera í þéttu sambandi við okkar viðskiptavini og fylgst með hvað verður. En við höfum þekkt þessi fyrirtæki sem við erum að selja til og fólkið sem þar vinnur í mörg ár og þessi viðskipti hafa verið byggð upp yfir langan tíma þannig að það er töluvert traust þarna á milli. Viðskiptin byggja mjög mikið á sterkum persónulegum samböndum,“ segir Teitur. Spurður um loðnuvertíðina sem fram undan er segist hann ekki telja að þjóðarbúið tapi á henni enda verð á mjöli og lýsi í hæstu hæðum.

Þetta sé hins vegar ekki í fyrsta skipti sem íslenskir fiskútflytjendur þurfi að takast á við hliðstæðar aðstæður vegna tímabundinna verri markaðsaðstæðna í Austur-Evrópu að sögn Teits. Síðan hafi markaðsaðstæður batnað á nýjan leik. Til að mynda í kjölfar bankahrunsins og eins í lok síðustu aldar. „Bæði við og viðskiptavinir okkar höfum þurft að vinna okkur út úr svona skafli áður þannig að málið er bara að vera svalur núna og vinna vel úr stöðunni.“

„Við höfum auðvitað áhyggjur af þessum aðstæðum í Rússlandi og viljum halda þessum markaði til lengri tíma. En eins og staðan er í dag þarf bara að leggja kalt mat á hlutina, vera í góðu sambandi við viðskiptavini og gæta hagsmuna okkar eins vel og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK