Almenningur í Rússlandi flykkist nú í verslanir og hamstrar ýmsar vörur sem fara síhækkandi í verði með hverjum deginum sem líður vegna falls rúblunnar.
Sala á innfluttum vörum hefur rokið upp þar sem neytendur keppast við að kaupa áður en verðið hækkar og eru klukkustunda langar biðraðir við búðarkassa orðnar algeng sjón.
Alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Ikea og Apple hafa neyðst til þess að hætta tímabundið sölu á ákveðnum vörum og stórhækka verð annarra á meðan barist er við að halda verðinu í takt við hríðfallandi gengi. Apple hækkaði til dæmis verð á iPhone 6 símum í Rússlandi um 25% en lokaði síðar fyrir vefverslun fyrirtækisins á svæðinu. Ikea stöðvaði þá einnig tímabundið sölu á eldhúsvörum- og húsgögnum en sala hefst aftur á morgun, þann 20. desember. Þá eru fyrirtækin General Motors, Jaguar, Land Rover og Audi búin að taka fyrir sendingar til landsins.
McDonald's hefur einnig hækkað verðið á Big Mac borgaranum um 2,2% samkvæmt frétt Bloomberg.
Almennt verðlag hefur alls hækkað um 25 prósent á árinu. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í gær að Rússland myndi brátt ná að jafna sig í kjölfar verstu efnahagskrísu sem hefur riðið yfir landið undir hans stjórn. Pútín sagðist halda örugglega um stjórnartaumana, þrátt fyrir refsiaðgerðir Vesturveldanna og hrun rúblunnar.
Miklar sveiflur hafa verið á gengi rúblunnar í þessari viku og hækkaði rússneski seðlabankinn stýrivextina í 17%.
Í myndbandinu að neðan má sjá örtröðina í verslunum.
Москва. Айкиа. Полночь http://t.co/4euGOStUts pic.twitter.com/T5mEE9Nv5v
— Хуёвый Washington DC (@ZhidoBandera) December 16, 2014
Business Insider greinir frá þessu.