Röð gjaldþrota hjá Hróa hetti

Rekstur Hróa Hattar hefur ekki gengið upp í gegnum árin. …
Rekstur Hróa Hattar hefur ekki gengið upp í gegnum árin. Veitingastaðurinn stendur enn opinn. Friðrik Tryggvason

Félagið Hrói Veitingar sem heldur utan um rekstur pítsustaðarins Hrói Höttur á Hringbraut var úrskurðað gjaldþrota þann 26. nóvember. Röð gjaldþrota einkennir fyrirtækið sem ennþá er í fullum rekstri.

Samkvæmt upplýsingum frá Hróa Hetti er Ásgeir Ásgeirsson eigandi staðarins á Hringbraut og samkvæmt gögnum úr ársreikningaskrá situr hann  í stjórn fyrrnefnds félags, Hrói Veitingar ehf. Ásgeir átti veitingastaðinn áður í gegnum félagið ÁÁ veitingar ehf. sem varð gjaldþrota á árinu 2012. Skiptum var lokið á búinu í apríl 2012 án þess að nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur sem alls námu um 77,6 milljónum króna.

Hrói Höttur á Smiðjuvegi gjaldþrota í haust

Þrír staðir eru starfandi í nafni Hróa Hattar, á Hringbraut í Reykjavík, Smiðjuvegi í Kópavogi og Skólavegi í Vestmannaeyjum.

Félagið Salt og Gott ehf. hélt utan um rekstur útibúsins á Smiðjuvegi. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 10. maí 2013 og var skiptum lokið 8. október sl. og var tæpum 59 milljónum króna lýst í búið. Alls fengust greiddar rúmar 1,3 milljónir króna eða 2,3% heildarkrafna. Gísli Ingason er eigandi Hróa Hattar á Smiðjuvegi samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu en hann sat í stjórn Salt og Gott. 

Gísli var einnig stjórnarformaður félagsins Lackland ehf. sem hélt utan um rekstur Hróa Hattar á Smiðjuvegi fram til ársins 2012 þegar skiptum var lokið á búi félagsins. Alls var rúmum 223 milljónum króna lýst í bú félagsins og fékkst ekkert greitt upp í kröfurnar.

250 milljónir afskrifaðar

Félagið Salt og gott hét áður Hrói Höttur ehf. og þar áður H.H ehf., en líkt og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna þurfti Sparisjóðurinn í Bolungarvík að afskrifa 250 milljónir króna vegna tapaðra lána til pítsustaðanna.

Gísli Ingason var meðal eigenda H.H ehf. og annar eigandi félagsins DNG ehf., fasteignafélags sem keypti húsnæði þar sem rekstur Hróa Hattar ehf. fór fram, á Smiðjuvegi í Kópavogi og Hjallahrauni í Hafnarfirði. Hinn eigandi DNG ehf. var Dagbjartur Bjarnasonar, sem einnig átti hlut í H.H. ehf.

Eignarhaldsfélag H.H. ehf. keypti á árinu 2007 vörumerki og rekstur pítsustaðarins Hróa Hattar á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Kaupin voru fjármögnuð með sameiginlegu láni nokkurra sparisjóða í erlendri mynt. Hlutur sparisjóðs Bolungarvíkur var tæplega 40 milljónir.

H.H ehf. og Hrói Höttur ehf. voru síðar sameinuð undir merkjum þess síðara og tók sparisjóðurinn þá þátt í fleiri lánum til Eignarhaldsfélags H.H. og DGN ehf. Í september 2007 fékk DGN ehf. m.a. 160 milljóna króna í erlendum myntum til kaupa á fyrrnefndum fasteignum Hróa Hattar.

Hrói Höttur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 19. janúar 2012 og DGN ehf. 13. september 2012

Hvorki náðist í Gísla né Ásgeir við vinnslu fréttarinnar.

Við Hróa Hött á Hringbraut.
Við Hróa Hött á Hringbraut. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK