Mest lesnu viðskiptafréttir ársins

Mest lesna viðskiptafrétt ársins fjallaði um mál sérstaks saksóknara á …
Mest lesna viðskiptafrétt ársins fjallaði um mál sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni Árnasyni. Málefni WOW vöktu einnig athygli á árinu og var önnur mest lesna fréttin um Bandaríkjaflug flugfélagsins. Þá var önnur frétt um félagið í sjöunda sæti. Samsett mynd/Kristinn Ingvarsson og Þórður Arnar

Nú þegar árið 2014 er að líða undir lok má til gamans líta yfir þær fréttir úr viðskiptalífinu á mbl.is sem vöktu mesta athygli. „Í rúminu með vinkonu eiginkonunnar“ var mest lesna viðskiptafrétt ársins en hún varðaði mál sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi banka­stjóra Lands­bank­ans, og Sig­ríði El­ínu Sig­fús­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, vegna félaga er héldu utan um kaupréttarsamninga starfsmanna á bréfum í bankanum.

Í fréttinni var meðal annars fjallað um tölvupóst frá Tryggva Jóns­syni, fyrr­ver­andi starfs­manni í út­lána­eft­ir­liti Lands­bank­ans, til Ingi­mund­ar Sig­ur­munds­son­ar, for­stöðumanns út­lána­eft­ir­lits bank­ans, þar sem hann spurði hvort viðbrögð bankans við mögulegri fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins um málið yrðu með svipuðum hætti og hjá manni sem ráfar inn í vitlaust herbergi og lendir fyrir vikið í rúminu hjá vinkonu eiginkonunnar. 

WOW vakti athygli

Í öðru sæti er fréttin „Hver er munurinn á WOW og Icelandair“, þar sem gerður var verðsamanburður á fargjöldum flugfélaganna tveggja til Norður-Ameríku. Kom þar í ljós að það munaði tæpum 15 þúsund krón­um á heild­ar­verði WOW Air og Icelanda­ir til Bost­on og rúm­um níu þúsund krón­um á heild­ar­verði WOW Air og Icelanda­ir til Washingt­on D.C. Var ódýrara að fljúga með WOW í báðum tilvikum. 

Í þriðja sæti er frétt sem fjallar um fyrsta fjöldaframleidda íslenska bílinn, en hann er fjallajeppi sem framleiddur er undir merkjum Ísar. Einnig er fjallað um bílinn í tíundu mest lesnu fréttinni þar sem lokahönnun jeppans leit dagsins ljós.

Fjórða mest lesna fréttin fjallar um kaup hjónanna Magnúsar P. Örn­ólfs­sonar og Önnu Bjargar Peter­sen á 30 íbúðum í tveim­ur fjöl­býl­is­hús­um við Aust­ur­kór 63-65. Kaupverð íbúðanna var um 970 milljónir króna.

Bjarni Ben og ISTV

Í fimmtu mest lesnu fréttinni er að finna frásögn fyrrverandi starfskonu ISTV. Hún og samstarfskona hennar voru beðnar um að fara stutt pils, há­hælaða skó, ýta upp brjóst­un­um, fara í flegn­a skyrt­ur og selja auglýsingar fyrir stöðina. Stjórnarformaður stöðvarinnar sem viðhafði ummælin staðfesti þau í samtali við mbl og sagðist ekkert draga úr þeim.

Í sjötta sæti er „Bjarna Ben-megrunarkúrinn í Nettó“ þar sem fjallað var um kæli sem settur var upp í versluninni með vörum sem kostuðu undir 248 krónum, en líkt og frægt er orðið var í forsendum með frumvarpi til breytinga á lögum um virðisaukaskatt gengið út frá því að máltíð fyr­ir einn í fjög­urra manna fjöl­skyldu kostaði 248 krón­ur.

Flugfélagið WOW vakti mikla athygli á árinu, bæði eftir að félagið hóf flug til Ameríku og þegar tekin voru upp töskugjöld, en í sjöundu mest lesnu viðskiptafrétt ársins var greint frá umfjöllun banda­ríska vef­tíma­rits­ins Slate, sem sagði auglýst 99 dollara fargjald til Íslands frá Boston vera of gott til að vera satt. Bent var á að verð á flestum sætum væri yfir auglýstu verði auk þess sem rukkað væri sérstaklega fyrir allt annað en farþegann sjálfan auk 5 kg handfarangurs.

Opnun og lokun

Áttunda mest lesna fréttin fjallaði um fríar veitingar þegar veitingastaðurinn Dirty Burger & Ribs var opnaður við Miklubraut í ágúst. Löng röð myndaðist síðar við staðinn þegar allt var í boði hússins.

Í níundu mest lesnu frétt ársins var greint frá því að Snæland Video sjoppunni í Furugrund yrði lokað eftir  29 ár í rekstri.

Líkt og að framan greinir var lokahönnun fyrsta íslenska bílsins birt í tíundu mest lesnu viðskiptafrétt ársins.

Lokahönnun fyrsta fjöldaframleidda íslenska bílsins. Fréttir um bílinn voru í …
Lokahönnun fyrsta fjöldaframleidda íslenska bílsins. Fréttir um bílinn voru í þriðja og tíunda sæti yfir mest lesnu fréttir ársins. Mynd/Ísar
Í sjötta sæti yfir mest lesnu fréttir ársins var „Bjarna …
Í sjötta sæti yfir mest lesnu fréttir ársins var „Bjarna Ben-megrunarkúrinn í Nettó“ Mynd/Nettó
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK