Nú þegar árið 2014 er að líða undir lok má til gamans líta yfir þær fréttir úr viðskiptalífinu á mbl.is sem vöktu mesta athygli. „Í rúminu með vinkonu eiginkonunnar“ var mest lesna viðskiptafrétt ársins en hún varðaði mál sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, vegna félaga er héldu utan um kaupréttarsamninga starfsmanna á bréfum í bankanum.
Í fréttinni var meðal annars fjallað um tölvupóst frá Tryggva Jónssyni, fyrrverandi starfsmanni í útlánaeftirliti Landsbankans, til Ingimundar Sigurmundssonar, forstöðumanns útlánaeftirlits bankans, þar sem hann spurði hvort viðbrögð bankans við mögulegri fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins um málið yrðu með svipuðum hætti og hjá manni sem ráfar inn í vitlaust herbergi og lendir fyrir vikið í rúminu hjá vinkonu eiginkonunnar.
Í öðru sæti er fréttin „Hver er munurinn á WOW og Icelandair“, þar sem gerður var verðsamanburður á fargjöldum flugfélaganna tveggja til Norður-Ameríku. Kom þar í ljós að það munaði tæpum 15 þúsund krónum á heildarverði WOW Air og Icelandair til Boston og rúmum níu þúsund krónum á heildarverði WOW Air og Icelandair til Washington D.C. Var ódýrara að fljúga með WOW í báðum tilvikum.
Í þriðja sæti er frétt sem fjallar um fyrsta fjöldaframleidda íslenska bílinn, en hann er fjallajeppi sem framleiddur er undir merkjum Ísar. Einnig er fjallað um bílinn í tíundu mest lesnu fréttinni þar sem lokahönnun jeppans leit dagsins ljós.
Fjórða mest lesna fréttin fjallar um kaup hjónanna Magnúsar P. Örnólfssonar og Önnu Bjargar Petersen á 30 íbúðum í tveimur fjölbýlishúsum við Austurkór 63-65. Kaupverð íbúðanna var um 970 milljónir króna.
Í fimmtu mest lesnu fréttinni er að finna frásögn fyrrverandi starfskonu ISTV. Hún og samstarfskona hennar voru beðnar um að fara stutt pils, háhælaða skó, ýta upp brjóstunum, fara í flegna skyrtur og selja auglýsingar fyrir stöðina. Stjórnarformaður stöðvarinnar sem viðhafði ummælin staðfesti þau í samtali við mbl og sagðist ekkert draga úr þeim.
Í sjötta sæti er „Bjarna Ben-megrunarkúrinn í Nettó“ þar sem fjallað var um kæli sem settur var upp í versluninni með vörum sem kostuðu undir 248 krónum, en líkt og frægt er orðið var í forsendum með frumvarpi til breytinga á lögum um virðisaukaskatt gengið út frá því að máltíð fyrir einn í fjögurra manna fjölskyldu kostaði 248 krónur.
Flugfélagið WOW vakti mikla athygli á árinu, bæði eftir að félagið hóf flug til Ameríku og þegar tekin voru upp töskugjöld, en í sjöundu mest lesnu viðskiptafrétt ársins var greint frá umfjöllun bandaríska veftímaritsins Slate, sem sagði auglýst 99 dollara fargjald til Íslands frá Boston vera of gott til að vera satt. Bent var á að verð á flestum sætum væri yfir auglýstu verði auk þess sem rukkað væri sérstaklega fyrir allt annað en farþegann sjálfan auk 5 kg handfarangurs.
Áttunda mest lesna fréttin fjallaði um fríar veitingar þegar veitingastaðurinn Dirty Burger & Ribs var opnaður við Miklubraut í ágúst. Löng röð myndaðist síðar við staðinn þegar allt var í boði hússins.
Í níundu mest lesnu frétt ársins var greint frá því að Snæland Video sjoppunni í Furugrund yrði lokað eftir 29 ár í rekstri.
Líkt og að framan greinir var lokahönnun fyrsta íslenska bílsins birt í tíundu mest lesnu viðskiptafrétt ársins.