Eigandi eins umtalaðasta vogunarsjóðs Moskvu er horfinn. Með alla peninga sjóðsins með sér. Hann var þekktur fyrir að lifa hátt og bókaði popphljómsveitir í partí og greiddi um tíma hæstu leiguna í Manhattan.
Sem kunnugt er hefur rúblan hríðfallið í verði og refsiaðgerðir Vesturveldanna haft mikil áhrif á rússneskt efnahagslíf. Blackfield Capital CJSC sjóðurinn hafði ekki farið varhluta af því og lét stofnandi sjóðsins sig einfaldlega hverfa. Þegar hópur manna óð inn á skrifstofur sjóðsins í október að leita af hinum 29 ára gamla forstjóra Kim Karapetyan fannst hvorki tangur né tetur af honum. Starfsmenn fyrirtækisins fundu hann hvorki þann dag né þann næsta og kom þá í ljós að Karapetyan hafði tæmt alla sjóði fyrirtækisins. Var þá haldinn fundur og öllum fimmtíu starfsmönnum fyrirtækisins greint frá því að ekki yrði hægt að greiða þeim laun þar sem allt fé væri horfið. Fé í eigu fyrirtækisins og fjárfesta er nemur um 20 milljónum dollara. „Forstjórinn okkar bara ... hvarf,“ sagði Sergey Grebenkin, starfsmaður fyrirtækisins, í viðtali við Wall Street Journal, sem greindi frá málinu.
Í umfjölluninni segir að Karapetyan sé mikill glaumgosi og hafi meðal annars flogið strákahljómsveitina Blue til Rússlands í áramótapartí á árinu 2013 auk þess sem hann greiddi um 15 þúsund dollara á mánuði í leigu fyrir íbúð í fjármálahverfi New York - en það mun vera hæsta leiga miðað við fermetrafjölda sem greidd hefur verið í hverfinu.
Þegar blaðamaður Wall Street Journal var að vinna fréttina fann hann einnig ósamræmi í ferilskrá Karapetyan. Þar segist hann hafa unnið fyrir Morgan Stanley bankann auk þess sem hann sé með meistaragráðu frá London School of Economics. Hvorug stofnunin kannaðist hins vegar við hann þegar blaðamaðurinn hafði samband.
Blackfield hafði þá áður greint frá áformum þess efnis að hefja starfsemi bæði í Bandaríkjunum og Englandi og hefur þegar tekið á leigu 18 skrifstofur á 46. hæð nýju World Trade Center byggingarinnar. Ekki þykir þó líklegt að af því verði, úr því sem komið er, þar sem engir peningar eru eftir í fyrirtækinu.