Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME), en skipunartími fyrri stjórnar rann út um áramót. Ásta Þórarinsdóttir er skipuð formaður stjórnar FME.
Þetta kemur fram á vefsíðu Fjármálaráðuneytisins.
Samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi fer þriggja manna stjórn, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra til fjögurra ára í senn, með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins. Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins. Meiri háttar ákvarðanir skal bera undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.
Ásta Þórarinsdóttir lauk BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands 1994 og MS gráðu í Investment Management frá City University í London 1996. Hún hefur einnig lokið prófi í verðbréfamiðlun.
Ásta starfaði hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands frá 1994 og síðar Fjármálaeftirlitinu allt til ársins 2005. Hún er framkvæmdastjóri Evu ehf. móðurfélags Sinnum, sem starfar á velferðarsviði.
Ásta hefur setið í mörgum stjórnum og nefndum bæði á einkamarkaði og hjá hinu opinbera, s.s. hjá Jöklum – verðbréfum, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, ISB Holding, LÍN og Yfirfasteignamatsnefnd.
Auk formanns eiga eftirtaldir aðal- og varamenn sæti í stjórn FME:
<div> <div> <ul> <li><span>Tómas Brynjólfsson, aðalmaður (varaformaður) </span></li> <li><span>Arnór Sighvatsson, aðalmaður, </span></li> <li><span>Friðrik Ársælsson, varamaður, </span></li> <li><span>Ástríður Jóhannesdóttir, varamaður</span></li> <li><span> Harpa Jónsdóttir, varamaður </span></li> </ul> </div> </div>