Algengt bensínverð hjá flestum olíufélögum hér á landi er nú komið undir 200 krónur, en þetta kemur í kjölfar mikilla lækkana á alþjóðlegum markaði. Í gær fór verðið niður í 201,5 krónur og var þá verð á alþjóðamarkaði um 49 Bandaríkjadalir á hverja tunnu.
Síðan þá hefur verið lækkað enn frekar og í dag fór það neðst í tæplega 47 dali. Síðustu klukkustundir hefur það reyndar örlítið hækkað á ný og stendur nú í um 48,5 dölum.
Útsöluverð á 95 oktana bensíni fór síðast niður fyrir 200 krónurnar í nóvember 2010, fyrir rúmlega fjórum árum.
Í lok síðasta árs reyndu OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, að koma sér saman um að minnka framleiðslumagn til að koma til móts við lækkandi verð og halda hærra markaðsverði. Þær viðræður fóru aftur á móti út um þúfur þegar Sádi-Arabía neitaði að minnka framleiðslu sína, en landið nýtur þess að framleiðslukostnaður þar er einn sá lægsti sem um getur og hafa þeir almennt getað aukið og minnkað framleiðslu til að mæta sveiflum á markaði.
Eina olíufélagið sem ekki hefur enn lækkað verðið undir 200 krónu múrinn er Shell, en þar kostar bensínlítrinn enn 201,9 krónur
Algengt verð á dísilolíu er í dag 203,5 til 203,9 krónur.
Hægt er að fylgjast með þróun verðsins á gsmbensin.is