Eldsneytisálag Icelandair, sem er hluti af fargjaldi, var lækkað um 15 prósent í byrjun desember vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. Þá hafa meðalfargjöld WOW air einnig lækkað að sögn upplýsingafulltrúa þótt eldsneytisálagið sé ekki sérstaklega aðgreint hjá flugfélaginu.
Eldsneytisálag í farþegaflugi var sett á vorið 2004 þegar flugeldsneyti hafði hækkað hratt í verði en Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl á dögunum að þetta hefði verið gert til að skýra fyrir fólki verðhækkanir á flugi.
Í sundurliðun í flugleitarvél Icelandair má sjá að eldsneytisálag flugfélagsins stendur í 7.900 krónum á flug til Evrópu en 13.900 krónum á flug til Norður-Ameríku. Þrátt fyrir 15 prósent lækkun á gjaldinu er gjaldið þó hærra en hjá öðrum flugfélögum. Til að mynda er eldsneytisgjald SAS 6.600 krónur fyrir Evrópuflug, eldsneytisgjald Norwegian er 1.600 krónur og eldsneytisgjald easyJet er 3.900, líkt og fram kemur í úttekt ferðavefsins Fararheill.
Guðjón bendir á að Icelandair kaupi tryggingar fyrir eldsneytissveiflum sem nýtast vel þegar um verðhækkanir er að ræða. Núna sé flugfélagið hins vegar að greiða meira en sem nemur heimsmarkaðsverði. Þetta segir Guðjón vera varnir sem flugfélögin nota til þess að minnka sveiflurnar. „Svo vonum við bara að hægt verði að lækka þetta meira áður en langt um líður,“ segir Guðjón.
WOW air aðgreinir eldsneytisálag ekki sérstaklega í fargjöldum sínum en Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, segir lækkandi olíuverð hafa gert flugfélaginu kleift að lækka meðalfargjöldin. „Markmið okkar er að bjóða ávallt lægstu fargjöldin og munum við halda áfram að gera það,“ segir Svanhvít í svari við fyrirspurn mbl.
Allt stefnir í að heimsmarkaðsverð á olíu haldi áfram að lækka en það hefur ekki verið lægra í tæp sex ár.
Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði í morgun á mörkuðum í Asíu og hefur verð á Brent-Norðursjávarolíu til afhendingar í febrúar lækkað um 1,93 Bandaríkjadali á tunnuna og stendur í 45,50 dollurum. Það er lægsta verð sem hefur fengist fyrir Norðursjávarolíu síðan í apríl 2009. Í gær lækkaði Norðursjávarolía um meira en 5% og var lokaverð hennar undir 50 dollurum á tunnu.