Ef laun á vinnumarkaði hækka jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin munu skuldir heimilanna hækka um 500 milljarða króna en kaupmáttur launa myndi aðeins aukast um 2 prósent. Þá yrði uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu 27 prósent.
Þetta eru niðurstöður nýrrar greiningar Samtaka atvinnulífsins þar sem metin eru áhrif þess að laun á vinnumarkaði hækki til samræmis við kjarasamninga lækna eða uppsafnaðri nafnlaunahækkun er nemur 30 prósentum á þremur árum. Aðeins er litið til kaupmáttar launa en ekki ráðstöfunartekna.
Þar segir að almenningur myndi hafa minna á milli handanna ef þessi leið yrði farin þar sem mikilli verðbólgu samhliða miklum launahækkunum fylgi mikil hækkun verðbóta og vaxta.
Í greiningunni er önnur sviðsmynd skoðuð, þ.e. ef launin myndu hækka um 3,5 prósent á ári næstu á næstu þremur árum. Þá yrði uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu 7 prósent og kaupmáttur launa aukast um 4 prósent samkvæmt útreikningum SA. Kaupmáttaraukningin yrði samkvæmt því helmingi meiri ef þessi leið væri farin, auk þess sem verðtryggð lán heimilanna myndu hækka mun minna. „Mikil launahækkun skilar því minni kaupmætti þegar upp er staðið,“ segir í útreikningum SA.