Costco opnar á næsta ári

Í stórum hluta þessa húss verður ný verslun Costco opnuð …
Í stórum hluta þessa húss verður ný verslun Costco opnuð á næsta ári. Um er að ræða 12 þúsund fermetra. mbl.is/Árni Sæberg

Bandaríski smásölurisinn Costco hefur tekið ákvörðun um að opna verslun hér á landi. Hún verður í Kauptúni 3, í Garðabæ, steinsnar frá IKEA, en þar er m.a. Bónusverslun og lager hjá IKEA. Stefnt er að því að verslun Costco verði opnuð á næsta ári. Costco mun kaupa stóran hluta hússins Kauptún 3, af Sýslu, sem er í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að niðurstaðan hefði orðið sú að Costco valdi Kauptún, en fyrirtækið hafði einnig verið að skoða Korputorg. Sá hluti hússins sem Costco kaupir nær frá Tekk og að Bónus, samkvæmt Gunnari.

„Ef ekkert óvænt kemur upp þá reikna þeir með að opna hér verslun á næsta ári. Mér sýnist að skipulagsferlið sem að okkur snýr geti tekið fram í júní á þessu ári. Að því loknu munu þeir byggja við það hús sem þeir eru að kaupa og því ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu að verslun þeirra í Kauptúni verði opnuð á fyrrihluta næsta árs,“ sagði Gunnar.

Stjórnað frá Bretlandi

„Við höfum verið að funda með fulltrúum frá Costco undanfarnar vikur og mánuði. Fyrst með fulltrúm fyrirtækisins í Bandaríkjunum, en upp á síðkastið með fulltrúum þeirra frá Bretlandi og verkefninu er stýrt þaðan. Við höfum reynt að svara spuringum þeirra um skipulagsmál, tæknimál, byggingarleyfi o.fl. og nú er fengin niðurstaða. Bretarnir hafa staðfest við mig að þeir hafa valið Kauptúnið fram yfir Korputorgið og það eru nokkrar vikur í það, að sögn Bretanna, að kaupsamningur um þessa 12 þúsund fermetra verði undirritaður. Samningurinn er frágenginn en hann er til yfirlestrar hjá þeim Costco-mönnum í höfuðstöðvunum,“ sagði Gunnar.

Costco leggur einkum áherslu á að selja margvíslegar vörur í magnpakkningum á lágu verði. Á meðal þess sem þar er selt er matvara, raftæki, húsgögn og fatnaður.

„Þeir sögðu mér að verðið hjá þeim yrði það lægsta sem byðist hér á landi. Við eigum að fagna þessu,“ segir Gunnar, „ekki bara Garðbæingar, heldur við Íslendingar, því með innkomu Costco eykst samkeppni á markaðnum, sem skilar sér væntanlega í lækkun vöruverðs“.

Gunnar segir að Bretarnir sem stjórna íslenska verkefninu, stjórni einnig verslunum Costco á Spáni, sem hafi gengið mjög vel. Þeir séu augljóslega að hasla sér völl í Evrópu, því umsókn þeirra um að reisa Costco-verslun eða verslanir í Frakklandi hafi verið lögð inn.

Fyrstu fréttir um að Costco, sem er næststærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, hefði áhuga á að opna verslun hér á landi birtust í Morgunblaðinu í mars í fyrra. Þá þegar höfðu fulltrúar fyrirtækisins átt fundi með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka