Nýr Pizza 67 staður hefur verið opnaður að Smiðjuvegi í Kópavogi. Sá er þó ekki rekinn af sömu mönnum og opnuðu nýverið sams konar pítsustað í Grafarvogi. Símanúmerið er annað og vefsíðan er önnur þótt matseðillinn sé sá sami.
Það vakti athygli þegar veitingastaðurinn var opnaður í Grafarvogi í desember en sá er í eigu Kristjáns Þórs Jónssonar, sem er betur þekktur sem plötusnúðurrinn Kiddi Big Foot, Antons Traustasonar og Ólafs Más Tryggvasonar.
Gísli Gíslason á hins vegar staðinn í Kópavogi auk vörumerkisins Pizza 67. Hann keypti hlut í Pizza 67 í Vestmannaeyjum á árinu 1994 en seldi sig úr fyrirtækinu ári síðar. Fyrir um einu ári síðan keypti hann vörumerkið út úr þrotabúi félagins sem áður rak staðina. Nú hefur hann gefið Pizza 67 í Grafarvogi og Vestmannaeyjum leyfi fyrir notkun nafnsins auk þess að opna eigin stað, sem hann segir alltaf hafa verið ætlunina að gera. Þá bætir hann við að símanúmer staðanna í Grafarvogi og Kópavogi verði að líkum sameinuð í næstu viku.
Gísli segist hafa keypt vörumerkið vegna þess að það sé flott auk þess sem honum hafi ávallt þótt pítsurnar þar vera bestar og búnar mestu magni af áleggi. „Markaðurinn hefur verið að þróast í þá átt að menn eru að bjóða upp á pítsur fyrir um eitt þúsund krónur sem eru ekkert nema brauðið. Ég held að að það sé markaður fyrir hátt í tveggja kílógramma pítsur,“ segir hann.
Hann segir aðsóknina hafa verið góða í Kópavogi og stefnir á að opna ennþá fleiri staði. „Við erum búnir að tryggja okkur 6767 númerið í nánast öllum landshlutum og ég reikna með að opna annan stað innan næstu sex mánaða,“ segir hann.
Þegar Pizza 67 var opnaður í Grafarvogi í síðasta mánuði sagði Kiddi Bigfoot í samtali við mbl að það hefði tekið langan tíma að finna réttu uppskriftirnar, láta framleiða rétta pepperóníið, sem er sérblandað fyrir staðina og útvega rétta hveitið fyrir pítsurnar. „Leyniuppskriftirnar voru vel faldar, það tók langan tíma að grafa þær upp. Fyrri eigendur voru með þær á háaloftum og í kjallara og því þurfti að fara í tiltekt áður en þær komu í ljós,“ sagði Kiddi.
Fyrri mbl: Opnar Pizza 67 í Reykjavík í kvöld
Frétt mbl: Kláruðu deigið á tveimur tímum