Vísa ásökunum um lögbrot á bug

Í grein Jóhannesar og Þorsteins segir að ásakanir um lögbrot …
Í grein Jóhannesar og Þorsteins segir að ásakanir um lögbrot og spillingu eigi ekki við um endurreisn fjármálakerfisins eftir hrun. mbl.is

Ásakanir um lögbrot og spillingu eiga ekki við um endurreisn fjármálakerfisins eftir hrun. Þetta kemur fram í grein sem Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður, og Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur, rita í Morgunblaðið í dag þar sem ásökunum Víglundar Þorsteinssonar, um stór­felld og marg­vís­leg laga­brot við endurreisn bankakerfisins er hafnað.

Greinarhöfundar voru báðir í lykilhlutverkum við endurreisn viðskiptabankanna þriggja en Jóhannes Karl var ráðgjafi Fjármálaeftirlitsins og síðar fjármálaráðuneytisins í gegnum ferlið og Þorsteinn leiddi samningaviðræður við skilanefndir föllnu bankanna og kröfuhafa fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Í síðustu viku sendi Víglundur Ein­ari K. Guðfinns­syni, for­seta Alþing­is, og öll­um þing­mönn­um bréf, eig­in grein­ar­gerð og stofnúrsk­urði Fjár­mála­eft­ir­lits­ins fyr­ir nýju bank­ana, frá því í októ­ber 2008. Þar bendir hann á að hugsanlegur ólög­mæt­ur hagnaður skila­nefnda/​slita­stjórna af meint­um fjár­svik­um og auðgun­ar­brot­um við endurskipulagningu bankanna kunni að nema á bil­inu 300 - 400 millj­örðum króna í bönk­un­um þrem­ur.

Hann segir þá samninga sem Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra, gerði við skilanefndir gömlu bankanna hafa verið til ábata fyrir kröfuhafa þeirra.

Ekki hægt að yfirtaka á grunnmatinu einu

Þegar nýju bankarnir voru stofnaðir á grunni þeirra föllnu voru innistæður landsmanna fluttar yfir en þær námu um 1.400 milljörðum króna. Þar sem ekki er hægt að taka eignir með ríkisvaldi nema greitt sé fyrir var látið meta eignirnar sem flytja þurfti yfir til þess að mæta þessum skuldbindingum. Bráðabirgðamat gaf til kynna að verðmæti þeirra væri um 2.500 milljarðar. 

Í grein Jóhannesar og Þorsteins segir að samið hefði verið um ákveðið grunngjald auk skilyrtra viðbótargreiðslna ef verðmæti eigna reyndist síðar vera meira en grunnmatið. Hið umsamda grunnmat varð á endanum 1.760 milljarðar króna, en ekki 2.500, líkt og bráðabirgðamatið gaf til kynna. Ítrekað er að þetta hafi verið grunnmat og bent er á að misskilnings hafi gætt um að hægt hefði verið að yfirtaka eignirnar á því verði án skilyrða. Námu viðbótargreiðslurnar allt að 215 milljörðum.

Í niðurlagi greinarinnar segir að við það blasi að bráðabirgðamatið hefði reynst óheppilegur grunnur undir endurreisn bankanna og er bent á að skuldabréfaútgáfa bankanna til slitabúanna hefði orðið 1.152 milljarðar í stað þeirra 247 milljarða sem niðurstaðan varð „og hefur það skuldabréf Landsbankans reynst ærinn biti að kyngja.“ Með 1.150 milljörðunum er vísað til mismunar á innistæðunum, sem námu um 1.400 milljörðum og 2.500 milljarða bráðabirgðamatsins.

Áttu ekki eignirnar og greiddu ekki fyrir þær

Þá er tekið fram að það sé í andstöðu við hagsmuni íslenska ríkisins að taka undir það sjónarmið að bráðabirgðamatið hafi verið réttur grunnur og velta megi fyrir sér hvers vegna umræðan snúist um að stjórnvöld hefðu átt að taka svo lélegan valkost að miða við hæsta möguleg mat. „Erfitt er einnig að skilja umræðu um að eignamatið hafi breytt stöðu þeirra sem skulduðu lánin, hún var nákvæmlega sú sama fyrir matið og eftir eins og fram kemur í ákvörðunum FME,“ segir í greininni.

„Í sinni einföldustu mynd snýst málið um mat á eignum sem fluttar voru með ríkisvaldi til nýju bankanna. Samkvæmt lögum þurfti að verðmeta eignirnar og svo þurfti nýi eigandinn að borga. Íslenska ríkið átti ekki þessar eignir og greiddi ekki fyrir þær.“

Jóhannes Karl Sveinsson
Jóhannes Karl Sveinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK