Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti sínar árlegu viðurkenningar í Hörpu í dag.
Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir, einn aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja, hlaut FKA viðurkenninguna, María Rúnarsdóttir einn stofnenda Mint Solutions hlaut Hvatningarviðurkenninguna og þakkarviðurkenninguna hlaut Guðný Guðjónsdóttir, eigandi Mokka-Kaffi.
Guðbjörg tók við rekstri Ísfélagsins eftir að eiginmaður hennar, Sigurður Einarsson, lést árið 2000. Í umsögn FKA um Guðbjörgu segir að hún hafi stýrt fyrirtækinu í gegnum mikla erfiðleika þegar nýtt frystihús Ísfélagsins brann sama ár og að það hafi hún gert með glæsibrag, dugnaði og elju.
María Rúnarsdóttir er einn stofnenda og eigenda Mint Solutions og var stjórnarformaður þess um tíma. Nú situr hún í stjórn félagsins og hefur haft yfirumsjón með öllum samningum þess. Í umsögn FKA segir að fyrir flesta væri þetta alveg nóg en auk þessa gegni hún stöðu fjármálastjóra hjá fasteignafyrirtækinu SMI og gegnir stöðu stjórnarformanns hjá fjármálafyrirtækinu Artica Finance.
Í umsögn FKA um Guðnýju Guðjónsdóttur segir að nafn hennar og fyrirtæki sé samofið íslenskri menningu og eigi sér öruggan stað í hjarta listamanna landsins sem og listunnenda – sælkera, stúdenta og hvers kyns spekúlanta. Það sé nánast óhætt að fullyrða að mikill meirihluti borgarbúa beri sterkar taugar til fyrirtækisins og sé henni og fjölskyldu hennar óendanlega þakklát fyrir framlag þeirra til menningarlífsins í víðustu merkingu þess orðs.