Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu Datacell og Sunshine Press Productions um að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta. Fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu að niðurstaðan hafi verið fyrirséð enda hafi engin lögvarin skaðabótakrafa legið að baki málatilbúnaðinum. Þá sé fjárhagsleg staða Valitor sterk og fyrirtækið fyllilega greiðslufært.
„Málið á rætur að rekja til lokunar Valitor árið 2011 á greiðslugátt til Datacell sem safnaði greiðslum fyrir SSP, en látið er að því liggja að SSP reki alþjóðlega starfsemi undir heitinu Wikileaks. Upphæð gjaldþrotskröfunnar nam 10,3 milljörðum króna ásamt vöxtum. Upphæðin vekur sérstaka athygli í ljósi þess að samkvæmt ársreikningum Datacell og SPP höfðu þau engar tekjur á síðustu árum, ekki einu sinni á þeim tíma er greiðslugáttin var opin. Það sætir því undrun að félög, sem aldrei hafa haft tekjur, geti orðið fyrir tjóni sem nemur milljörðum,“ segir ennfremur.
Þá kemur fram að Valitor líti það mjög alvarlegum augum að fyrirtæki á borð við Datacell og SPP „komist upp með að nýta sér nýtilkomna glufu í íslenskum lögum til að leggja fram gjaldþrotskröfu, sem er algerlega órökstudd og í engu samræmi við tilefnið. Farsakennd kröfugerð af þessu tagi á hvorki heima í íslensku dómskerfi né íslensku viðskiptaumhverfi.“
Fréttir mbl.is:
Fara fram á gjaldþrotaskipti á Valitor