Sjónvarpskonurnar Hugrún Halldórsdóttir og Hödd Vilhjálmsdóttir hafa stofnað almannatengslafyrirtækið KVIS. Eftir margra ára reynslu af fjölmiðlum segjast þær þekkja bransann betur en margir og telja það jákvætt að fá fleiri konur inn á vettvanginn.
Hödd og Hugrún störfuðu báðar í Íslandi í dag og sem fréttamenn hjá Stöð 2 en þar áður unnu þær á Morgunblaðinu. Þær segjast eiga gott skap saman og þekkja styrkleika hvorrar annarrar. Hödd segir þær eiga það sameiginlegt að hafa gaman að fólki og bætir við að henni hafi alltaf þótt vettvangurinn spennandi.
„Við vitum hvernig á að setja umfjöllun í áhugaverðan búning,“ segir Hugrún. Þær hyggjast leggja áherslu á notkun samfélagsmiðla og telja sig einnig hafa nokkra sérstöðu hvað framsetningu á kynningarefni varðar, þar sem þær eru vanar vinnslu innslaga af ýmsum gerðum. „Það sker okkur aðeins frá en við höfum kynnt okkur það vel erlendis þar sem slíkt er mikið notað. Þetta eru ekki auglýsingar heldur leið til að koma skilboðum á framfæri,“ segir Hödd og bætir við að innslögin gætu til dæmis nýst fyrirtækjum með starfsstöðvar í mörgum löndum þar sem koma þarf upplýsingum á milli með skilvirkum hætti.
Hugrún er með B.Sc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og Hödd er með meistarapróf í lögfræði frá sama skóla. Þær telja menntunina nýtast vel í starfi og bendir Hödd á að lögræðikunnátta komi almannatenglum vel. „Ef fólk lendir í veseni getur kunnáttan mín úr náminu komið sterk inn. Þá er mikilvægt að réttar upplýsingar komi fram og eins að þær séu settar fram með réttum hætti,“ segir hún.
Þá segjast þær þegar vera komnar með nokkra viðskiptavini og telja sérstaka eftirspurn hafa verið eftir konum á sviðinu þar sem karlar eru í miklum meirihluta. „Við teljum að það sé nóg pláss fyrir ungar konur í bransanum,“ segir Hugrún.