Tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík hefur stækkað með hverju árinu og er gert ráð fyrir um 3.500 gestum í ár. Þar af verða erlendir gestir rúmlega 1.500 talsins auk blaðamanna og erlendra listamanna. Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri og tónleikahaldari hátíðarinnar, segir kostnaðinn við Sónar nema um 60 milljónum króna.
Sónar fer fram í Hörpu frá 12. til 14. febrúar en Björn bendir á að tölurnar sýni að hátíðin sé að festa sig í sessi meðal ferðamanna. Um 700 erlendir gestir sóttu hátíðina þegar hún var fyrst haldin á árinu 2013, um 1.100 í fyrra og nú eru þeir 1.500. Hann segir markmiðið vera að ná 2.000 erlendum gestum á hátíðina en flestir hafa hingað til komið frá Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Hollandi og Spáni.
Björn nefnir að afleidd áhrif vegna hátíðarinnar séu gífurleg á annars rólegum ferðamannatíma. Hann segir öll hótel vera uppbókuð og reiknar með að erlendir gestir hátíðarinnar taki um tvö þúsund gistinætur.
Björn segir það kosta bæði vinnu og peninga að markaðssetja hátíðina erlendis. „Þú þarft að eyða miklu til þess að ná 1.500 ferðamönnum til landsins,“ segir Björn og bætir við að um tveimur milljónum króna hafi verið varið í markaðssetningu erlendis.
Hátíðin er að mestu fjármögnuð með miðasölu og samstarfsaðilum en hlaut þó einnig fjögurra milljón króna styrk frá Reykjavíkurborg. Björn stendur einnig fyrir Sónar hátíðum í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Í Stokkhólmi fer hátíðin fram um sömu helgi og í Reykjavík en í Kaupmannahöfn verður hún um fyrstu helgina í mars en Björn segir hátíðirnar þrjár velta samanlagt rúmlega tvö hundruð milljónum króna.
Ætlunin er að halda hátíðirnar þrjár um sömu helgi á næsta ári og ná þannig fram frekari samlegðaráhrifum. „Þá getum við boðið listamönnum að spila á þremur hátíðum um sömu helgi,“ segir hann. Þannig sé hægt að fá stærri nöfn á betri kjörum.
Björn segir að hátíðin í Reykjavík verði hins vegar ekki stækkuð í miðafjölda. „Við munum halda okkur við Hörpu en hins vegar gera hana stærri í listamönnum. Kúnnahópurinn okkar, sem er á aldursbilinu 25 til 40 ára, vill sjá stærri nöfn í minni sölum en gerist og gengur erlendis,“ segir hann. „Þess vegna ætlum við að vera með hátíðirnar þrjár á sömu helgi,“ segir hann.
Meðal þekktustu listamannanna í ár eru Skrillex, SBTRKT, Paul Kalkbrenner og Jamie XX úr hljómsveitinni The XX.
Miðinn á Sónar kostar 18.900 krónur og aðspurður segir Björn að miðaverð verði mögulega hækkað í framtíðinni. „Miðaverð er of lágt á Íslandi,“ segir hann. Hann segir það þó vera sambærilegt miðaverðinu í Danmörku og Svíþjóð en hins vegar sé virðisaukaskattur lagður á miðaverð í þeim löndum. „Hér erum við með sama miðaverð en við sitjum uppi í mínus í upphafi vegna þess að við borgum fullan virðisaukaskatt af leigu, tækjum, tólum og markaðssetningu en fáum engan frádrátt á móti,“ segir hann.
Björn telur lausnina þó ekki endilega felast í því að bæta virðisaukaskatti á miðaverð heldur telur hann að tónleikahaldarar ættu að fá sömu skattaafslætti og kvikmyndaiðnaðurinn. „Við eigum að vera undir sömu lögum og kvikmyndagerðarmenn og ættum að fá endurgreiðslu fyrir að koma með erlenda ferðamenn til landsins,“ segir hann. „Við erum að koma með blaðamenn og selja landið. Þú ættir að fá endurgreiðslu byggða á árangri þínum við að ná í þessa ferðamenn,“ segir hann. „Með því má afleggja styrkjakerfi sem því miður veltur á huglægu mati stjórnmálamanna og embættismanna og allir sitja við sama borðið,“ segir Björn að lokum.