Jafnvel þótt Alcoa sé eingöngu fjármagnað með lánum frá erlendu systurfélagi í Lúxemborg til þess að komast hjá skattgreiðslum hérlendis er ekkert við því að gera. Ekki nema að hægt sé að sýna fram á að vaxtagjöldin séu hærri en þau mega vera milli óskyldra aðila.
Þetta segir Kristján Gunnar Valdimarsson, lögmaður hjá Cato og lektor í skattarétti við Háskóla Íslands. Í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gær ræddi Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi rannsóknardómari, um það hvernig alþjóðleg fyrirtæki notuðu glufur í skattalögum til þess að koma hagnaði undan skatti hér á landi með gervilánum. Nefndi hún álfyrirtækið Alcoa sérstaklega í því sambandi og sagði slíkt framferði vera ólöglegt og að senda þyrfti skilaboð um að það yrði ekki liðið. Kanna ætti hér á landi með hvaða hætti væri staðið að slíkum málum.
Kristján Gunnar bendir á að jafnvel þótt Ríkisskattstjóri kanni málið megi fyrirtæki færa eins mikil vaxtagjöld og þau vilja séu vaxtakjörin eins og milli óskyldra aðila.
Sérstakt ákvæði um magra eiginfjármögnun er ekki í íslenskri löggjöf en Kristján bendir á að nefnd um aðgerðir gegn skattsvikum hafi lagt til að slíkt ákvæði yrði tekið upp á árinu 2004. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Slíkt ákvæði myndi koma í veg fyrir að félög gætu verið skuldsett umfram tiltekin mörk og þannig lækkað skattstofn með því að færa frádrátt á móti vöxtum.
Alþingi hefur hins vegar samþykkt að ekki sé hægt að breyta skattalögum að því er snýr að þessum aðilum. Samkvæmt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, er tekið fram að ekki megi breyta reglum í skattalögum um frádrátt vaxta frá því sem var við undirritun samningsins og eiga efnisatriði laganna sem eru í gildi að haldast óbreytt á gildistíma samningsins. Til viðbótar er ekki hægt að hækka skatt umfram 18% á álbræðsluna en nú er 20% skattur á almenn fyrirtæki í landinu.
Þá er einnig í lögum um heimild til álbræðslu á Grundartanga tekið fram að félagið sé undanþegið breytingum sem kunna að verða á reglum um vaxtafrádrátt eftir undirritun samninganna en samskonar ákvæði eru í flestum ef ekki öllum samningum um stóriðju á Íslandi.
Samkvæmt fyrri umfjöllun Kastljóssins hefur Alcoa á Íslandi ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan 2003 og á þar að auki inneign á móti sköttum næstu ára.