Catalinu Ncogo langar helst að opna tvær Miss Miss-tískuverslanir í Reykjavík, aðra í Smáralind og hina á Laugavegi. Hún vill að verslanirnar verði stórar og flottar og segir það ekki sinn stíl að vera úti í horni.
Miss Miss er hluti ítalskrar tískuverslunarkeðju en Catalina opnaði fyrstu slíku verslunina í Holtagörðum á árinu 2013. Hún lokaði henni í lok síðasta árs og segir húsnæðið í Holtagörðum ekki hafa hentað og vill vera þar sem fólksumferð er meiri.
Hún segist hafa haft áhuga á verslunarrými í Kringlunni, Smáralind og á Laugavegi en hins vegar sé rýmið í Kringlunni líklega of dýrt. Því hefur hún sótt um pláss í Smáralind og á von á svörum á næstu dögum. Þá hyggst hún mögulega opna aðra verslun á Laugaveginum en segist þó eiga eftir að gera það upp við sig hvort hún vilji helga sig alfarið verslunarrekstrinum. „Ég á eftir að ákveða hvað ég vill verða,“ segir Catalina.
Líkt og mbl hefur áður greint frá var félagið Exclusive Boutique C. Ncogo ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 30. október 2014. Félagið er í eigu Catalinu og sagði hún að félagið hefði haldið utan um leigusamninginn um verslunarrýmiið í Holtagörðum. Catalina vildi hins vegar losna úr húsnæðinu og ákvað því að setja félagið í þrot. Í samtali við mbl sagði hún að leigan hefði nýlega verið hækkuð og væri of há. Þá sagði hún leigusamninginn hafa verið til tíu ára og óuppsegjanlegan. Taldi hún sig því ekki eiga annarra kosta völ en að setja félagið í þrot og losna þannig undan samningssambandinu.
Líkt og áður hefur verið greint frá var Catalina dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2009 fyrir hagnýtingu vændis og fíkniefnabrot. Hæstiréttur þyngdi þann dóm hins vegar í 3½ ár í júní 2010. Þá var hún einnig dæmd í 15 mánaða fangelsi í júlí 2010 fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni og var dómurinn hegningarauki við fyrri dóm. Catalina var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal.
Hún sat inni í tvö ár í kvennafangelsinu í Kópavogi og var látin laus í júní 2011.