Datacell og Sunshine Press Production hafa stefnt Valitor vegna rúmlega átta milljarða skaðabótakröfu. Málið var þingfest þann 22. janúar en héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Valitor um málskostnaðartryggingu. Valitor hefur nú fjögurra vikna frest til þess að skila greinargerð.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell og Sunshine Press Production, segir kröfu Valitor um málskostnaðartryggingu hafa byggt á því að Datacell væri í raun gjaldþrota. Hann segist hafa lagt fram ársreikning er sýnir að stærsta krafa á hendur félaginu sé víkjandi lán eiganda og félagið sé ekki ógjaldfært.
Málið á rætur að rekja til lokunar Valitor árið 2011 á greiðslugátt til Datacell sem safnaði greiðslum fyrir Sunshine Press Productions, fyrirtækið að baki Wikileaks. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell og Sunshine Press Production, bendir á að Hæstiréttur hafi dæmt lokunina ólögmæta og á því byggi skaðabótakrafan. Gáttin var alls lokuð í 617 daga og skaðabótakrafan byggir á tjóninu sem fyrirtækin urðu fyrir á meðan gáttin var lokuð. Krafan byggir á útreikningum Sigurjóns Þ. Árnasonar, sem taldi tjónið vera á bilinu frá 1,5 milljarði króna til átta milljarða.
Varakrafa í málinu byggir þá á niðurstöðu matsmanna sem þó hafa ekki verið dómkvaddir. Sveinn Andri segist hafa valið að höfða matsmálið samhliða skaðabótamálinu og og taka það samhliða.
Héraðsdómur Reykjaness hafnaði fyrr í mánuðinum kröfu Datacell og Sunshine Press Productions um að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu sem hljóðaði upp á 10,3 milljarða. Málið var höfðað á grundvelli 5. töluliðar, 2. málsgreinar 65. greinar laga um gjaldþrotaskipti, en samkvæmt ákvæðinu hefur kröfuhafi sem hefur fengið sérstaka greiðsluáskorun þrjár vikur til að svara hvort hann ætlaði að borga eða væri greiðsluhæfur.Töldu fyrirtækin að svör Valitor hefðu verið ófullnægjandi og taldi héraðsdómur að skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt.
Sveinn Andri bendir á að gjaldþrotaskiptamálið hafi ekki tekið efnislega á skaðabótakröfunni.
Aðspurður um samaðild félaganna tveggja að málinu segir Sveinn Andri þetta vera skólabókardæmi þar um. „Þetta er sami tjónsatburður. Annar aðilinn er með kröfu utan samninga en hinn innan samninga og rökrétt er fyrir þá sem verða fyrir tjóni vegna sama atviks að höfða málið saman,“ segir hann.