Farið var fram á gjaldþrotaskipti á félagi Catalinu Ncogo vegna vangoldinnar launakröfu starfsmanns sem hætti vegna ágreinings þeirra á milli.
Kolbrún Eva Oddsdóttir, hóf störf í tískuverslun Catalinu, Miss Miss í Holtagörðum haustið 2013 en hætti í desember sama ár eftir að þær lentu í útistöðum. Þegar Kolbrún hætti taldi Catalina sig ekki þurfa að greiða henni laun fram að 19. desember þar sem hún hefði sagt upp störfum í miðjum mánuði. Leitaði Kolbrún þá til VR sem aðstoðaði hana í málinu.
Krafan fékkst loks greidd úr þrotabúi félagsins Exclusive Boutique C. Ncogo ehf. Í fyrra samtali við mbl sagðist Catalina hafa sett félagið í þrot til þess að losna undan leigusamningnum í Holtagörðum. Fyrr í vikunni sagði hún mbl einnig frá áformum um að opna nýjar Miss Miss verslanir.
Kolbrún segist hafa verið ráðin til þess að vinna frá klukkan 11 til 18 en Catalina hafi hins vegar fljótt farið að láta hana vinna ýmis önnur störf sem ekkert viðkomu afgreiðslustörfum. „Og alltaf var það þannig að ef ég neitaði að gera hlutina varð hún brjáluð og hótaði að reka mig,“ segir Kolbrún. „Ég get ekki haft stelpu í vinnu hjá mér sem gerir ekki allt það sem ég segi henni að gera,“ segir Kolbrún og vísar í Catalinu. Kolbrún tók skjáskot af samskiptum þeirra og sendi bæði á Vinnumálastofnun og VR þegar mál hennar var til meðferðar.
Samkvæmt samskiptunum þrábað Catalina Kolbrúnu um að hringja í meinta hjásvæfu kærasta hennar á þeim tíma og lét hana heyra það þegar hún slökkti á símanum til þess að komast undan bóninni. Þá bað Catalina hana einnig um að hafa fé af syni forseta Nýju-Gíneu eftir að hann sendi Catalinu vinabeiðni á Facebook. „Ég reyndi að fá hana af þessari hugmynd en henni fannst ekkert eðlilegra,“ segir hún. Þá segir hún Catalinu ekki hafa virt veikindarétt sinn og meðal annars hótað henni uppsögn ef hún mætti ekki veik til vinnu.
Kolbrún segist þá loks hafa fengið nóg þegar Catalina hugðist halda konukvöld í versluninni en ætlaðist til þess að Kolbrún myndi sjá launalaust um það. „Ástæðan fyrir því að ég lét þetta yfir mig ganga í þennan tíma var sú að ég þarf að vera með tekjur til að halda íbúðinni og mér sjálfri uppi. Hún hótaði alltaf að reka mig ef ég gæti ekki gert hitt eða þetta svo það var lítið annað í stöðunni en að hlýða og aldrei fékk ég borgað neitt aukalega fyrir það sem ég gerði utan vinnutíma,“ segir Kolbrún.
Exclusive Boutique C. Ncogo ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 30. október 2014 en skiptum á búinu er ekki lokið.
Líkt og áður hefur verið greint frá var Catalina dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2009 fyrir hagnýtingu vændis og fíkniefnabrot. Hæstiréttur þyngdi þann dóm hins vegar í 3½ ár í júní 2010. Þá var hún einnig dæmd í 15 mánaða fangelsi í júlí 2010 fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni og var dómurinn hegningarauki við fyrri dóm. Catalina var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal.
Hún sat inni í tvö ár í kvennafangelsinu í Kópavogi og var látin laus í júní 2011.