Áfall þegar Epal var lokað

Steinunn Vala Sigfúsdóttir, hönnuður og eigandi Hring eftir Hring.
Steinunn Vala Sigfúsdóttir, hönnuður og eigandi Hring eftir Hring. Ómar Óskarsson

Steinunn Vala Sigfúsdóttir, hönnuður og eigandi skartgripafyrirtækisins Hring eftir hring, segir það hafa verið áfall þegar hún heyrði af fyrirhugaðri lokun Epal í Flugstöðinni þar sem sölustaðurinn skapaði umtalsverðan hluta af heildartekjum fyrirtækisins.

Hring eftir hring er sex ára gamalt fyrirtæki sem Steinunn Vala stofnaði við eldhúsborðið heima. „Þó við séum réttu megin við núllið í dag er hver króna svo ótrúlega dýrmæt og fastar tekjur gríðarlega þýðingamiklar. Við seldum þarna reglulega fyrir upphæð sem samsvarar launagreiðslum til eins starfsmanns hjá okkur en í heildina starfa sex hér heima í tæplega fjórum stöðugildum,“ segir hún.

Hefur áhrif á 70 hönnuði

Epal fékk ekki áfram­hald­andi rekstr­ar­leyfi eft­ir útboðsferli Isa­via á veit­inga- og versl­un­ar­rým­um í flug­stöðinni og þurfti því að loka versluninni í upphafi ársins. Um sjö­tíu ís­lensk­ir hönnuðir seldu þar vör­ur sín­ar og hefur Eyjólfur Pálsson, eigandi Epal, sagt marga þeirra þurfa að draga saman seglin sökum þess að stór hluti tekna þeirra staf­aði frá flug­stöðinni.

Steinunn Vala bendir á að auk tekjumissisins sé einnig mikill missir af kynningunni sem vörurnar hlutu í flugstöðinni. „Þegar við hófum að selja þar fyrir nokkrum árum var um helmingur sölunnar til erlendra ferðamanna en mér skilst að hlutfallið hafi verið komið upp í 90 prósent undir lokin,“ segir hún.

Þá segir hún hönnunina einnig hljóta ákveðna viðurkenningu þegar henni er stillt upp við hlið heimsþekktrar hönnunar í versluninni. „Epal hefur hjálpað okkar fyrirtæki mikið með þessu, vegna þess að við höfum kynnst fólki sem er að koma í gegnum flugstöðina og sér okkar vörur innan um önnur þekkt merki. Það skapar ákveðna ímynd sem skiptir svo gríðarlega miklu máli,“ segir hún og bætir við að Hring eftir hring hafi dæmis fengið umboðsmann í Danmörku sem kom auga á hönnunina í millilendingu í flugstöðinni. 

Kynna íslenska hönnun af alvöru

Þá segir hún verslanir í flugstöðinni búa við þann góða kost að geta selt án virðisaukaskatts og tolla. Hún fái sama heildsöluverð greitt fyrir vörurnar en þær séu seldar á lægra verði. „Þess vegna er verslun í flugstöðinni einstaklega dýrmætur kostur og hjálpar okkur að koma vörum okkar á framfæri til stærri hóps viðskiptavina,“ segir hún.

„Ég veit að Epal á engan einkarétt á þessu rými en það er einstaklega sárt að sjá á eftir þeim úr flugstöðinni því Epal hefur af einlægni og alvöru verið að koma íslenskum hönnuðum á framfæri bæði hér heima og erlendis. Hafa kynnt okkur fyrir sínum bestu kúnnum af virðingu og sýna enga feimni við að kynna þá sem eru nýir og það er einstaklega dýrmætt fyrir unga fagstétt sem þarf að sanna sig,“ segir Steinunn.

Aðspurður um framtíð íslenskrar hönnunar í flugstöðinni benti Guðni Sig­urðsson, full­trúi yf­ir­stjórn­ar Isa­via, í fyrra samtali við mbl á þrjár versl­an­ir sem bjóða upp á slík­ar vör­ur; Ramma­gerðina, Lag­er­d­ere Services og ARG Fashi­on. Hann sagði Ramma­gerðina vera í miklu sam­starfi við ís­lenska hönnuði og að þar yrði boðið upp á úr­val ís­lenskr­ar hönn­un­ar­vöru. Þá muni Lag­ar­d­ere bjóða upp á ís­lensk­ar sæl­kera­vör­ur og að skart og að fatnaður yrði  í versl­un ARG.

Rammagerðin er ólíkur kostur

Steinunni hefur ekki verið boðið að selja hönnun sína í öðrum verslunum í flugstöðinni og segist ekki enn þekkja til allra þeirra aðila sem þar muni koma að sölu á sambærilegum vörum. Aðspurð segir hún óvíst hvort henti að selja skartgripina í Rammagerðinni. „Í ljósi þess hve ólíkar verslanirnar eru og vöruframboð þeirra,“ segir hún.

Niður­stöður útboðsins voru kynnt­ar í októ­ber og er sam­kvæmt þeim gert er ráð fyr­ir að tekj­ur af versl­un­ar­svæðinu muni aukast um sex­tíu pró­sent með þeim breyt­ing­unum. Auk­in áhersla verður lögð á teng­ingu við Ísland og er breyt­ing­un­um ætlað auka úr­val og fram­boð vöru og veit­inga í flug­stöðinni og skila flug­vell­in­um aukn­um leigu­tekj­um. Aðal­heiður Héðins­dótt­ir, for­stjóri Kaffitárs, hef­ur gagn­rýnt útboðsferlið og í sam­tali við mbl benti hún á að verið væri að stækka versl­un­ar­rýmið auk þess sem farþegum sé að fjölga. Hins veg­ar væri það látið í veðri vaka að vöxt­ur­inn ætti að vera vegna þess­ara nýju aðila.

Frétt mbl.is: Flugstöðin eins og Eden í Hveragerði

Frétt mbl.is: Gruggut útboðsferli í Leifs­stöð

Frétt mbl.is: Mikl­ar breyt­ing­ar á flug­stöðinni

Um 90 prósent af sölunni í flugstöðinni var til erlendra …
Um 90 prósent af sölunni í flugstöðinni var til erlendra ferðamanna. Ómar Óskarsson
Eyjólfur Pálsson, eigandi Epal. Vörur frá um 70 íslenskum hönnuðum …
Eyjólfur Pálsson, eigandi Epal. Vörur frá um 70 íslenskum hönnuðum voru seldar í Epal í flugstöðinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK