Í Mávahlíðinni er að finna hina lífseigu verslun Sunnubúð. Á bak við hana er löng og merkileg saga en hún hét áður Stjörnubúð, áður en Óskar Jóhannsson kaupmaður, þá 22 ára, keypti hana og breytti nafninu í Sunnubúð árið 1951. Starfrækti hann verslunina í rúma þrjá áratugi en nú rekur búðina kaupmaðurinn Eysteinn Sigurðsson, og hefur gert síðustu fimm ár. Hann segir reksturinn ganga vel.
„Það hefur verið sífelld aukning í viðskiptum og í raun sé ég ekki fyrir endann á henni í bráð,“ segir Eysteinn. „Ég held að fólk kunni að meta það þegar komið er til móts við það með góðu vöruúrvali og sanngjörnu verði.“
Aðspurður hvort þróunin sé í þessa átt, að fólk snúi í auknum mæli aftur til kaupmannsins á horninu, segir Eysteinn: „Ef kaupmaðurinn sinnir viðskiptavininum þá kemur hann aftur í búðina, það er bara lögmálið.“
Verslunin er að verða 64 ára gömul og hefur ekki tekið miklum breytingum fyrir utan þær að vörurnar eru ekki ennþá réttar yfir borðið. „Hér eru innréttingarnar yfir 30 ára gamlar en maður finnur ekkert fyrir því og eftir áratugi í þessum bransa þá hef ég aldrei haft betri græjur en þessar.“
Eysteinn segir búðina vera samgróna hverfinu. „Ef ég myndi opna sams konar verslun í Norðlinga- eða Grafarholti þá myndi hún fara lóðrétt á hausinn. Til að verslun eins og þessi geti skapað sér rekstrargrundvöll þarf hún fyrst að skapa sér hefð, og til þess þarf tíma. Og nú á dögum er enginn tími í boði.“