Tveir nýir staðir voru formlega opnaðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun; Mathús og Loksins Bar.
Í tilkynningu segir að Mathús sé fjölskylduvænt og framsækið mathús með fjölbreyttan gæðamat fyrir alla fjölskylduna kvölds og morgna. Loksins Bar á þá að vera með besta úrval landsins af bjór frá Borg brugghúsi ásamt miklu úrvali af víni og snöfsum.
Það voru Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Lagardère og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem klipptu á borða við opnun Mathúss og buðu í leiðinni fyrstu farþegunum, Parísarbúunum Ann Sophie og Harold, upp á frían morgunmat. Gunnhildur Vilbergsdóttir, markaðsstjóri Isavia klippti á borðann við opnunina á Loksins Bar á sama tíma.
Heildarútlit Mathúss var hannað af HAF Studio og Sigga Odds en innréttingarnar voru sérsmíðaðar af JP Innréttingum og sérhannaðar af ASK arkitektum. Stólarnir og barstólarnir voru hannaðir af Erlu Sólveigu en lamparnir hannaðir af Dóru Hansen annars vegar og Jóni Helga Hólmgeirssyni og Þorleifi Gunnari Gíslasyni hins vegar. Heildarútlit Loksins Bar er hannað af Karlssonwilker og HAF Studio, bekkir, lampar og allar innréttingar hannaðar hjá HAF Studio, stólar af Halldóri Hjálmarssyni og barstólar af Daníel Magnússyni.
„Með tilkomu þessara staða í Flugstöðinni fá farþegar á leið út úr landinu fyrsta flokks mat og drykki, fjölbreytt vöruframboð, ferska vöru og alþjóðaþekking matreiðslumanna og barþjóna nýtist til hins ítrasta. Íslensk hönnun nýtur sín sem aldrei fyrr á einum besta flugvelli Evrópu,“ segir í tilkynningu frá Mathús. „Mathús og Loksins Bar bjóða farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar velkomna í ævintýri fyrir bragðlaukana og augað í upphafi góðrar ferðar.“