Að mati Samkeppniseftirlitsins er ljóst að fákeppni ríkir í smásölu á dagvörumarkaði hér á landi og hefur verð á innfluttum vörum hefur ekki lækkað í takt við styrkingu gengis íslensku krónunnar.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um stöðu samkeppninnar á dagvörumarkaði. Þar er bent á að fjórar verslanasamstæður, Hagar, Kaupás, Samkaup og 10-11/Iceland, voru samanlagt með um 90% markaðshlutdeild á landinu öllu árið 2014. Þar af voru Hagar með 48-49% hlutdeild, Kaupás 19-20%, Samkaup 15-16% og 10-11/Iceland 5-6% hlut.
Vísbendingar eru þó um að samþjöppun sé smám saman að minnka en dregið hefur úr markaðshlutdeild Haga frá árinu 2009 auk þess sem nýir aðilar hafa náð að auka hlutdeild sína.
Í skýrslunni segir að mikilvægt sé að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu í gegnum lægra vöruverð en bent er á að afkoma dagvöruverslana hafi verið að styrkjast á liðnum árum. Þá segir að verðþróun í verslunum hafi aftur á móti ekki verið til samræmis við gengisstyrkingu og þróunina erlendis. Er þetta sagt fela í sér vísbendingar um að álagning birgja og/eða dagvöruverslana á innfluttum vörum hafi verið að hækka á síðastliðnum þremur til fjórum áum.
Í síðustu skýrslu Samkeppniseftirlitsins um sama efni var bent á að aðrar verslanir en stærstu verslanasamstæðurnar þrjár, hefðu fengið mun lakari kjör hjá birgjum. Var það talið fela í sér aðgangshindrun þar sem ómögulegt verður fyrir minni verslanir að veita þeim stóru samkeppni.
Eftirlitið óskaði í kjölfarið eftir gögnum frá birgjum til þess að rannsaka hvort kjörin hefðu skaðleg áhrif á samkeppni og feldu í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Enn er verið að yfirfara skýringar og útreikninga og samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni er ekki hægt að veita nánari upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar á þessu stigi málsins.
Þá segir að mikilvægt sé að neytendur og samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti sýni fyrirtækjum á dagvörumarkaði aðhald með öllum tiltækum ráðum. „Aðhald neytenda getur haft mikla þýðingu til þess að tryggja að bættar ytri aðstæður skili sér í lægra verði og að nýlegar breytingar á opinberum gjöldum leiði ekki til hærra vöruverðs en óhjákvæmilegt er,“ segir í skýrslunni.