Hjólreiðakapparnir og vinirnir Benedikt Skúlason og Guðberg Björnsson endurhönnuðu hjólaffalinn fyrir nokkrum árum og stofnuðu fyrirtækið Lauf Forks. Í dag er gaffallinn kominn í dreifingu víða um heim; allt frá Argentínu til Suður-Kóreu.
Að sögn Benedikts eru þeir félagar komnir með átján dreifingaraðila um allan heim. „Þetta er í fyrsta sinn sem við förum að krafti inn í sumarið. Stóru markaðirnir eru að detta í gang,“ segir Benedikt og bætir við að bandaríski dreifingaraðilinn sé t.a.m. með um 5.000 verslanir á sínum snærum.
Lauf gaffallinn er sérstakur að því leyti að hann er mun léttari en aðrir sambærilegir hágæða gafflar. Gaffallinn byggir á stuttum samsíða glertrefjafjöðrum til að ná fram fjöðrun, í stað hefðbundinna teleskópískra dempara. Þannig svarar hann höggum vel, þarfnast ekki viðhalds og vegur aðeins um 900 grömm, en almennir demparagafflar í hágæðaflokki eru í dag á bilinu 1,2 til 1,5 kíló.
Gaffallinn er seldur sérstaklega, þannig að fólk þarf að skipta þeim út sem fyrir er á hjólinu. Benedikt bendir á að sá markaður sé takmarkaður en reiknar með að um 300 eintök muni seljast á mánuði í ár. Framtíðaráætlunin er hins vegar að ná samningum við hjólaframleiðendur þannig að gaffallinn verði hluti af upphaflegri hönnun hjólanna. Benedikt segir þá vera komna með samning við stóran þýskan hjólaframleiðanda en bætir þó við að ótímabært sé að nefna hann á nafn, þar sem þeir hyggjast kynna samstarfið í sumar.
„Framan af hlaut gaffallinn blendnar móttökur þar sem hann lítur öðruvísi út en þeir sem menn hafa áður séð. En eftir að menn hafa fengið að prófa hann hefur hann fengið afbragðs góða dóma,“ segir Benedikt.
Að neðan má sjá myndband sem breski dreifingaraðili Lauf Forks lét framleiða en það sýnir gaffalinn í notkun.
Frétt mbl.is: Nýjung í hjólaheiminum