Dómstóll í Franfurt í Þýskalandi komst í dag að þeirri niðurstöðu að starfsemi leigubílaþjónustunnar Uber bryti í bága við leigubílalöggjöf og bannaði starfsemi fyirtækisins í landinu öllu.
Félagið Taxi Deutschland höfðaði málið í ágúst í fyrra og taldi þjónustuna ólöglöglega og óörugga þar sem bílstjórar Uber eru ekki með sérstakt leyfi til leigubílaaksturs. Stjórnarformaður félagsins fagnaði niðurstöðunni og sagði í samtali við CNN að réttlætinu hefði verið fullnægt.
Forsvarsmenn Uber sögðust virða þýska löggjöf og voru ekki búnir að fara yfir röksemdir dómara þegar CNN hafði samband. Þá sögðust þeir hafa í hyggju að áfrýja banninu.
Þjónustan hefur mætt töluverðri gagnrýni víða um heim og verið bönnuð í nokkrum borgum en sumir telja öryggi farþega stefnt í hættu þar sem bílstjórar Uber þurfa ekki sérstakt leyfi til leigubílaaksturs. Hafa félög leigubílstjóra mótmælt starfseminni harðlega.
Fyrirtækið er í dag metið á um 40 milljarða dollara og starfar í um 250 borgum víðs vegar um heim.