Gjaldþrotaskiptum á Leikskólanum 101 ehf. var lokið hinn 4. mars sl. en ekkert fékkst greitt upp í kröfurnar er námu rúmum átta milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag.
Leikskólinn var úrskurðaður gjaldþrota hinn 22. janúar 2014 eftir að hafa verið í kastljósi fjölmiðla vegna ásakana um harðræði gegn börnum.
Málið komst upp þegar tveir sumarstarfsmenn leikskólans sýndu Barnaverndarnefnd Reykjavíkur myndskeið þann 27. ágúst 2013 og tilkynntu málið formlega. Í bréfi Barnaverndar til foreldra barna á leikskólanum kom fram að sýnt þætti að annmarkar hefðu verið á starfsemi ungbarnaleikskólans og að ómálga börn hefðu verið beitt harðræði.
Lögreglan hóf rannsókn á málinu en það var fellt niður í september á síðasta ári þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar. Umboðsmaður barna sendi í kjölfarið lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara álit sitt vegna meðferðar málsins og sagðist harma niðurfellingu þess. „Umboðsmaður gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu að sú háttsemi að slá barn á rass teljist ekki refsiverð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002,“ sagði m.a. í álitinu.
Alls dvaldi 31 barn á leikskólanum en börnin voru 9-18 mánaða gömul. Starfsmenn leikskólans voru níu talsins. Hulda Linda Stefánsdóttir, eigandi Leikskólans 101, ákvað í kjölfar málsins að hætta rekstri ungbarnaleikskólans.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar áframsendi mál er varðaði fjármál leikskólans skattrannsóknarstjóra eftir ábendingar frá foreldrum um að þeir hafi í einhverjum tilvikum greitt leikskólagjöldin inn á einkareikninga eiganda leikskólans og eiginmanns hennar. Samkvæmt upplýsingum frá Skattrannsóknarstjóra hefur málið þó ekki verið til rannsóknar og engar upplýsingar var um það að finna í málaskrá.