Sækjast eftir heimilistryggingunni

Alls hafa 874 mál í tengslum við starfsemi Lýsingar verið …
Alls hafa 874 mál í tengslum við starfsemi Lýsingar verið höfðuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur frá upphafi árs 2010. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fyrirtæki sem gera út á gengislánamál og stefna inn þess konar málum til þess að geta komist í heimilistryggingu viðskiptavina er meðal ástæðna fyrir gífurlegum fjölda mála tengdum starfsemi Lýsingar. Þetta segir Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins.

Líkt og ViðskiptaMogginn greindi frá í morgun hafa alls 874 mál í tengslum við starfsemi Lýsingar verið höfðuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur frá upphafi árs 2010. Þessar tölur koma fram í skýrslu Samtaka Iðnaðarins um starfshætti Lýsingar en markmið hennar var að varpa ljósi á vandamál sem viðskiptavinir fyrirtækisins hafa staðið frammi fyrir.

Í samtali við mbl tekur Þór fram að hvorki hann né aðrir hjá Lýsingu hafi séð skýrsluna og setur því alla hugsanlega fyrirvara við hana. Ef tölurnar séu réttar sé málafjöldinn innan við 2% af heildarlánasafni fyrirtækisins eins og það var fyrir hrun.

Halda fast um budduna

Aðspurður um ástæðu þessa málafjölda segir Þór Lýsingu vera í annarri stöðu en nýju fjármálafyrirtækin sem fengu nýja kennitölu í hruninu. „Við höfum hvorki notið ríkisstyrkja né fengið lánasafn með afslætti. Við höfum þurft að halda fast um budduna og eðlilegt hefur þótt að leita leiðsagnar dómstóla um skyldur okkar,“ segir Þór. „Samanburður við önnur fjármálafyrirtæki er með öðrum orðum skakkur,“ segir hann.

Þá segir hann að dómur sé samkvæmt lögum orðinn hluti af innheimtuferli en fjármögnunarfyrirtæki þurfa að fara í innsetningarmál til þess að tryggja leigumuni. Það skýri töluverðan hluta af málunum.

Betra að ganga frá málum utan réttar

Samkvæmt tölunum frá Samtökum iðnaðarins sem fengnar eru úr málalista Héraðsdóms Reykjavíkur er bent á að athyglisvert sé að Lýsing taki til varna í 77% tilvika af þeim 510 dómsmálum sem nú standa óleyst. 

„Á síðustu misserum hafa sprottið upp kröfugerðafyrirtæki sem gera út á að fá málskostnaðartryggingu úr heimilistryggingum viðskiptavina. Til þess að komast í hana verða þeir að fá málin þingfest,“ segir Þór. 

Aðspurður hvort hann telji fyrirtækin vera að hvetja viðskiptavini til þess að fara í óþarfa málarekstur, þegar hægt sé að leita lausna utan dómstóla, segir hann óeðlilegt að innbyggður hvati sé til þess að gera einmitt það. „Málarekstur veldur gríðarlegu álagi á aðila málsins og dómstóla,“ segir Þór. „Ég spyr bara hvort ekki sé rétt að í eðlilegu viðskiptaumhverfi sé gengið frá málum utan réttar líkt og kostur er,“ segir hann.

Leysa úr 55 málum á tveimur dögum

Lýsing hefur þó sagt það vera stefnu fyrirtækisins að fá leyst úr álitaefnum fyrir dómi til þess að skyldur fyrirtækisins liggi skýrar fyrir. Aðspurður hvort það sé ekki jafnframt réttur viðskiptavina segir Þór það vera stjórnarskrárvarinn rétt manna að leita úrlausnar dómstóla. „Ég geri ekki lítið úr honum. Þann rétt eiga viðskipavinir Lýsingar og þann rétt á Lýsing,“ segir hann og bætir við að Lýsing sé ekki að ástæðulausu að reka mál fyrir dómi þar sem 3 mál af hverjum 4 sem farið hafa fyrir Hæstarétt, frá árinu 2010, hafa fallið Lýsingu í hag. 

Að sögn Þórs mun Lýsing í dag og á morgun ganga frá 55 réttarsáttum vegna niðurstöðu Hæstaréttar í fullnaðarkvittanamálunum.

Flestar heimilistryggingar innifela tryggingar fyrir réttaraðstoð og geta tryggingarþegar fengið stærsta hluta kostnaðar vegna til dæmis lögmannsþóknunar, greidda af tryggingafélaginu sínu. Málskostnaður vegna gengislánamála fellur meðal annars hér undir. Eigin áhætta er í flestum tilvikum 20 prósent og bera tryggingarfélögin því 80 prósent kostnaðarins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK