„Hefur ekkert með aldur að gera“

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sagði fólk yfir fimmtugt …
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sagði fólk yfir fimmtugt vera bara áskrifendur að laununum sínum. Sigurgeir Sigurðsson

„Best er að ráða unga og graða stjórnendur, því fólk yfir fimmtugt er bara áskrifendur að laununum sínum.“ Þetta hefur heimildamaður mbl eftir Hlyni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, frá fundi Isavia í fyrra. Þrír starfsmenn, sem meðal annarra sátu fundinn, voru mjög ósáttir við ummælin, enda allir um og yfir fimmtugt. Þeim hefur nú öllum verið sagt upp störfum hjá félaginu.

Aðspurður segir Hlynur að ummælin sé tekin úr samhengi og að það sé fyrir neðan allar hellur að tengja þau við uppsagnirnar.

Ummælin voru látin falla þegar Hlynur var að kynna nýjan stjórnanda hjá Isavia í mars á síðasta ári. Starfsmennirnir þrír sem sátu á fundinum höfðu unnið lengi hjá fyrirtækinu og var þeim öllum sagt upp störfum hinn 24. febrúar sl. Ástæðan var sögð vera skipulagsbreytingar innan fyrirtækisins og voru störf þeirra voru lögð niður. Þeim voru ekki boðnar aðrar stöður.

Mennirnir eru á aldrinum frá fimmtugu til sextugs. Einn þeirra hefur unnið hjá ríkinu allan sinn starfsaldur og átti fá ár eftir í 95 ára regluna svonefndu sem þýðir að hann hefði getað farið á eftirlaun.

Baðst afsökunar

Hlynur lýsir því að ummæli í þessa átt hafi verið látin falla þegar starfsmennirnir þrír voru að spyrja hvort það hefði verið ráðinn inn nýr stjórnandi og hver það væri. Hlynur segist ekki hafa getað gefið það upp vegna þess að nýi stjórnandinn átti eftir að tilkynna þáverandi vinnuveitanda um starfslok. „Ég gat ekki gefið upp nafnið á viðkomandi vegna þess að hann hafði ekki talað við sitt fyrirtæki. Þess vegna sagði ég eitthvað um að hann væri ungur og öflugur, ég man ekki hvaða orð ég notaði, en að gera það að einhverju niðrandi fyrir starfsmennina er fyrir neðan allar hellur,“ segir Hlynur.

Þá segist hann hafa hitt starfsmennina þrjá á fundi viku síðar og beðist formlega afsökunar á ummælunum. „Ég baðst afsökunar og sagðist ekki hafa meint neitt illt ef einhver skyldi hafa móðgast. Ég leit ekki einu sinni á þá sem hlut af einhverjum eldri starfsmönnum,“ segir Hlynur.

Hann segir síðari skipulagsbreytingar ekki hafa tengst fyrrnefndum ummælum. „Verkefni eru færð til og stundum geta mennirnir færst með en stundum ekki,“ segir Hlynur aðspurður hvers vegna mönnunum hefði ekki verið boðin ný staða. „Það var metið sem svo að þessi störf ætti að setja á annarra manna hendur. Það hefur ekkert með aldur að gera,“ segir hann og bætir við að hann hafi oft sagt að starfsmenn í eldri kantinum væru með betri mætingu og stæðu sig vel í starfi. „Unga fólkið mætti leita til þeirra og sjá hvernig þeir gera þetta,“ segir Hlynur.

Niðurlæging í starfslokunum

Ásmundur Friðriksson alþingismaður, hefur vakið athygli á starfslokum starfsmannanna þriggja og sagt það illa gert að segja mönnunum upp án ástæðna, annarra en skipulagsbreytinga, og gefa þeim ekki kost á færa sig til í starfi innan fyrirtækisins. Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, sagði þá í samtali við Morgunblaðið á dögunum að ákveðin niðurlæging fælist í uppsögninni þar sem mönnunum var gert að yfirgefa vinnustaðinn tafarlaust líkt og þeir hefðu brotið af sér.

Í svari Isavia við fyrirspurn Morgunblaðsins á dögunum kom fram að breytingar á skipulagi flugverndar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar miði að því að stytta boðleiðir og auka skilvirkni. Heimildarmaður mbl segir þvert á móti virðast sem skiplag Isavia hafi þanist út „þar sem hver stjórnandinn á fætur öðrum hefur verið ráðinn til fyrirtækisins á undanförnum mánuðum. Framkvæmdastjórar eru flestir komnir með aðstoðarframkvæmdastjóra, svo eru deildarstjórar, verkefnastjórar og svo mætti áfram telja.“

Ógnarstjórnun yfirstjórnar

Þá segir hann mikla óánægju ríkja meðal starfsmanna með yfirstjórn Isavia sem þykir beita ógnarstjórnun og þora starfsmenn lítið að segja og gera af ótta við hefndir yfirmanna. Skilaboðin séu nánast þau að ef þú tjáir þig um eitthvað, þá ertu farinn. 

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Isavia hafa farið í mál við fyrirtækið vegna uppsagnar. Isavia hefur þurft að greiða allmörgum bætur vegna ólögmætrar uppsagnar en fengið sjónarmið sín viðurkennd í öðrum tilvikum. 

Hlynur neitar því alfarið að einhvers konar ógnarstjórn ríki innan Isavia og bendir á að í gær hafi verið stjórnendanámskeið hjá Isavia þar sem farið var yfir að menn gætu haft mismunandi skoðanir en samt þurft að halda áfram veginn. 

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mynd/Isavia
Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Isavia hafa farið í mál við fyrirtækið …
Nokkrir fyrrverandi starfsmenn Isavia hafa farið í mál við fyrirtækið vegna uppsagnar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK