Viðræðum stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja við Landsbankann um samruna var framhaldið í dag. Góður gangur er í viðræðunum og er fastlega gert ráð fyrir að gengið verði frá kaupsamningi á morgun, sunnudag, samkvæmt heimildum mbl.is.
Fjármálaeftirlitið gaf stjórn sparisjóðsins frest til klukkan 16:00 í gær til að koma með áætlun um hvernig styrkja mætti eiginfjárgrunn sparisjóðsins. Talsmenn sjóðsins komu með þrjár tillögur.
Sú fyrsta gekk út á að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins meðal annars með aðkomu erlends eignarhalds. Hún var ekki talin áreiðanleg og var því hafnað af Fjármálaeftirlitinu.
Þa var lögð fram tillaga um að ganga til samninga við Landsbankann um samruna og er nú unnið eftir henni. Forsvarsmenn sparisjóðsins munu einnig hafa haft í handraðanum tillögu um viðræður við Arion banka, en hún var ekki borin undir Fjármálaeftirlitið, samkvæmt heimildum.