Í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins vegna samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja við Landsbankans, kemur fram að lausafé sjóðsins hafi rýrnað mikið á undanförnum dögum.
„Síðustu daga hafa innstæðueigendur í sparisjóðnum í auknum mæli tekið út reiðufé eða fært innlán sín til annarra innlánsstofnana. Þannig hefur hreint útflæði innstæðna sjóðsins rýrt laust fé hans um helming,“ segir í tilkynningunni. Þá telur eftirlitið að sjóðnum hafi ekki tekist að tryggja aðgang að nægu lausu fé til að mæta áframhaldandi útflæði í sama mæli.
Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014 liggur einnig fyrir að eiginfjárhlutfall sjóðsins er neikvætt um 1,1%.
Telur Fjármálaeftirlitið því að með ákvörðuninni um samruna, hafi verið komið í veg fyrir frekara tjón fyrir viðskiptavini sjóðsins, stofnfjáreigendur og skattgreiðendur.