Felst lausnin í þjóðpeningakerfi?

mbl.is/Júlíus

Svokallað þjóðpeningakerfi getur verið nothæfur grundvöllur að endurbótum á peningakerfinu. Þetta er niðurstaða skýrslu um endurbætur á peningakerfinu, sem Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur skilað forsætisráðherra.

Í þjóðpeningakerfi myndi Seðlabankanum einum vera heimilt að búa til peninga fyrir hagkerfið. Jafnframt yrði peningavaldinu skipt upp. Seðlabankanum yrði falið að skapa þá peninga sem hagkerfið þarf, en Alþingi yrði falið að ráðstafa nýjum peningum með fjárlögum. Með þjóðpeningakerfi væri dregið úr óstöðugleika peningakerfisins, skuldsetning myndi minnka og tekjur af peningamyndun  renna til ríkisins í stað þess að renna til viðskiptabankanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Skýrslan, sem unnin var að beiðni forsætisráðherra, skoðar að hvaða leyti megi rekja vandamál í stjórn peningamála hér á landi til þess að bönkum er heimilt að „búa til peninga‟ þega þeir veita lán. 

Þrálát verðbólga og óstöðugur gjaldmiðill

Fram kemur, að í gegnum tíðina hafi hagkerfi Íslands þurft að glíma við þráláta verðbólgu og óstöðugan gjaldmiðil. Einnig hafi orðið hér á landi eitt dýrasta bankahrun sem sögur fari af.

Fram kemur í skýrslunni að íslenskir viðskiptabankar sköpuðu mun meira af peningum en hagkerfið þurfti á að halda. Seðlabankanum tókst ekki að hafa hemil á peningamyndun bankanna með hefðbundnum stjórntækjum sínum.

Skýrslan skoðar hugmyndir um endurbætur á peningakerfinu og kemst að þeirri niðurstöðu að svokallað þjóðpeningakerfi geti verið nothæfur grundvöllur að endurbótum á peningakerfinu.

Ítarlegri greining á kostum og göllum þjóðpeningakerfis er nauðsynleg áður en afstaða er tekin til þess hvort umbætur á grunni þess eru fýsilegar hér á landi.

Hefur frelsi til að innleiða betra peningakerfi

Formála skýrslunnar ritar Adair Turner lávarður. Hann var formaður breska Fjármálaeftirlitsins og formaður þeirrar nefndar sem vann stefnu alþjóðlega fjármálastöðugleikaráðsins.

Í formála sínum segir Turner: „Tilraunir til að draga úr óstöðugleika núverandi fjármálakerfis hafa enn sem komið er ekki tekið á aðalvandanum þ.e. möguleika bankanna til að búa til skuldir, peninga og kaupmátt og þeim óstöðugleika sem því fylgir óhjákvæmilega. Niðurstaðan er sú að þær umbætur sem hafa verið samþykktar fram til þessa, skilja veröldina eftir berskjaldaða gegn fjármálalegum og efnahagslegum óstöðugleika í framtíðinni.“

„Ég er mjög ánægður með að þessi skýrsla skuli vera komin út. Ég vænti þess að hún verði mikilvægt innlegg í þá  nauðsynlegu umræðu sem framundan er, hér sem annars staðar, um peningamyndun og stjórnun peningamála,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í tilkynningunni.

„Ísland er fullvalda ríki með eigin gjaldmiðil og hefur því frelsi til að segja skilið við hið óstöðuga brotaforðakerfi og innleiða betra peningakerfi. Slíkt frumkvæði þarf hins vegar að grundvallast á ítarlegri skoðun valkosta og víðtækri sátt um mikilvægi raunverulegra umbóta,“ segir Frosti Sigurjónsson í tilkynningu.

Skýrsluna má lesa hér, en hún er á ensku.

Frosti Sigurjónsson er skýrsluhöfundur.
Frosti Sigurjónsson er skýrsluhöfundur. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK