1.100 manns ætla að fela sig í Ikea

Það má finna fjölmarga felustaði í Ikea. Enda er verslunin …
Það má finna fjölmarga felustaði í Ikea. Enda er verslunin líkt og risastórt heimili. mbl.is/Árni Sæberg

Um 1.100 manns hafa boðað komu sína í feluleik í Ikea í Garðabæ á laugardaginn. Þátttakendur ætla að hittast fyrir utan búðina klukkan eitt og skipta sér í lið áður en leikar hefjast. Framkvæmdastjóri Ikea segir lítið annað í stöðunni en að leyfa fólkinu að fela sig og hvetur leikmenn til að sýna varkárni.

Leikir sem þessir hafa verið vinsælir víða um heim þar sem auðvelt er að skipuleggja þá með hjálp Facebook. Auk þess er nóg um góða felustaði í versluninni.

Ikea í Hollandi greip til þess að banna feluleiki í nokkrum verslunum eftir að boðað hafði verið til þeirra á Facebook. Um 32 þúsund manns höfðu skráð sig til leiks í Ikea í Eindhoven, 19 þúsund í Amsterdam og 12 þúsund í Utrecht áður en Ikea forsvarsmenn Ikea tóku fyrir gamanið og vísuðu til öryggisráðstafana. „Það er erfitt að stjórna þessu,“ sagði talskona Ikea Group í samtali við Bloomberg. „Við þurfum að tryggja að fólk sé öruggt í búðinni og það er erfitt að gera þegar við vitum ekki hvar allir eru,“ sagði hún.

Þýðir ekki að berjast á móti þessu

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea, segir stöðuna ólíka því sem var í Hollandi þar sem menn gátu átt von á tugum þúsunda í búðina. „Við erum að renna pínu blint í sjóinn en okkar afstaða er almennt sú að vinna frekar með fólki en á móti því,“ segir hann og bætir við að ómögulegt gæti einnig verið að aðgreina þátttakendur frá viðskiptavinum.

„Við erum búin að velta þessu fyrir okkur og ætlum bara að gera gott úr þessu,“ segir Þórarinn. „Við munum merkja ákveðin svæði í búðinni sem má ekki undir neinum kringumstæðum fara inn á. T.d. eiga neyðarútgangar alls ekki að vera felustaðir. Þá munum við fjölga öryggisvörðum og starfsmönnum,“ segir hann og bætir við að hann vonist til þess að fólk muni sýna skynsemi. „Það gengur náttúrulega alls ekki að fólk fari að velta bókaskápum þar sem okkur er að sjálfsögðu umhugað um öryggi þessa hóps og viðskiptavina okkar.“

Skilur löngunina

Aðspurður hvort fólk hafi áður verið í feluleik í búðinni segir hann lítinn hóp hafa verið að því og vísar til þess að nokkrir hafi lokast inni í búðinni fyrir um þremur árum. „Fólkinu brá vegna þess að húsið er bara svæft þegar allir eru farnir. Það er ekkert sérstaklega spennandi að vera lokaður þarna inni um miðja nótt,“ segir Þórarinn.

„Þetta verður að minnsta kosti óvenjulegur dagur. Verslunin er náttúrulega engri lík þannig að ég skil það vel að fólk vilji prófa þetta.“

Fela sig í ísskápum

Vinsældirnar feluleikjanna má rekja til þess að Ikea gaf leyfi fyrir leiknum í versluninni í Wilrijk í Belgíu eftir að hin 29 ára gamla Elise De Rijck hafði sett leikinn á lista yfir 30 hluti sem hana langaði að gera fyrir 30 ára afmælið. Um 500 manns tóku þátt í leiknum og földu sig ýmist í ísskápum, undir tuskudýrum eða í hrúgu af innkaupapokum. „Ikea er bara eins og risastórt stofa,“ sagði De Rijck í samtali við Bloomberg og bætti við að leikurinn hefði verið fáránlega skemmtilegur.

Þátttakendur ætla að hittast fyrir utan Ikea klukkan 13 á …
Þátttakendur ætla að hittast fyrir utan Ikea klukkan 13 á laugardaginn. Gísli Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK