Ellefu starfsmenn Húsasmiðjunnar, Byko og Úlfsins byggingarvara voru í dag sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara en Steingrímur Birkir Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri byggingarsviðs Byko, var hins vegar dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.
Sérstakur saksóknari höfðaði málið á hendur starfsmönnunum í maí sl. vegna gruns um verðsamráð. Sakborningarnir neituðu allir sök í málinu.
Þórhallur Haukur Þorvaldsson, verjandi Leifs Arnar Gunnarssonar, markaðsfulltrúa Byko, sem var sýknaður í málinu, segist ánægður með niðurstöðuna. „Þetta er eins og lagt var upp með af okkar hálfu. Ákæran kom okkur í opna skjöldu og niðurstaðan er því í samræmi við væntingar,“ sagði Þórhallur í samtali við mbl.
Steingrímur var sakfelldur fyrir brot sem greint er frá í fjórða kafla ákærunnar og felst í hvatningu til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar. Í ákærunni segir að hann hafi þann 28. febrúar 2011 upplýst Júlíus Þór Sigurþórsson, sem einnig var ákærður í málinu, um hvernig hann myndi haga tilboðsgerð Byko í grófvörum. Þá hvöttu þeir hvor annan til þess að stuðla að því að fyrirtækin tvö myndu ekki stunda samkeppni.
Alls verða um 90 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði í málsvarnarlaun verjenda.
Málið, sem var í rannsókn í rúm þrjú ár, var gríðarlega umfangsmikið og skjalafjöldinn tæplega fimm þúsund blaðsíður. Rannsóknin hófst í mars 2011 þegar Samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdu húsleitir hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum - byggingarvörum.
Í fyrstu voru 19 manns handteknir en þeim sleppt að lokum yfirheyrslum. Rúmri viku síðar voru 15 manns handteknir og færðir til frekari yfirheyrslu. Loks voru þrettán ákærðir. Aðrir sem handteknir voru eru þó hugsanleg vitni í málinu að sögn sérstaks saksóknara. Sönnunargögn í málinu eru meðal annars tölvupóstar og símtöl á milli starfsmanna.
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Húsasmiðjunnar var lokið með sátt í júlí á síðasta ári þegar fyrrverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar viðurkenndi brot sín og samþykkti að greiða 325 milljónir króna í sekt vegna málsins.
Þegar samið var um sektina sagði Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, í samtali við mbl.is að samráð fyrirtækjanna um verðlagningu á byggingavörum hefði hækkað byggingarkostnað um milljarða króna, með tilheyrandi vísitöluhækkun á lánum heimila og fyrirtækja.