Þó ekki hafi náðst sátt um breytingar á stjórn HB Granda í aðdraganda aðalfundar sem haldinn verður síðar í dag er ljóst að stórir hluthafar í félaginu munu kalla eftir slíkum breytingum næst þegar kosið verður til stjórnar.
Áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins herma að þá verði farið fram á margfeldiskosningu sem gerir hluthöfum auðveldara um vik að knýja fram breytingar á stjórninni.
Sömu heimildir herma að forsvarsmenn þeirra hluthafa sem kallað hafi eftir breytingum á stjórninni vilji í lengstu lög forðast átök við Kristján Loftsson, stjórnarformann félagsins og einn stærsta eiganda þess, enda njóti hann víðtæks trausts til að veita fyrirtækinu áframhaldandi forystu, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.