Skoða lagalega stöðu gegn ríkinu

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur falið bæjarstjóra að láta vinna lögfræðilega úttekt á söluferli Sparisjóðs Vestmannaeyja og athuga hvort ríkið og stofnanir þess hafi gengið fram með ólögmætum hætti.

Horft verður sérstaklega til þess hvort ríkið hafi með ósanngjörnum hætti og án þess að brýna nauðsyn bæri til haft möguleika af öðrum eigendum sparisjóðsins til að vinna að lausnum sem hefðu hugsanlega verið hagfelldari honum og byggðunum þar sem hann starfar.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, staðfestir þetta og segir að bæjarstjórnin hafi farið ítarlega yfir málið á fundi. „Okkur þykir eðlilega óþægilegt að kaupandinn, Landsbankinn, hafi haft meiri upplýsingar um verðmætið en seljandinn og teljum því einnig brýnt að fá aðgengi að lánasafninu til þess að skoða stöðu sparisjóðsins betur,“ segir hann og bætir við að málið sé þegar komið í farveg.

Ríkið alls staðar við borðið

„Það liggur fyrir að ríkið fór með ferðina í sparisjóðnum sem meirihlutaeigandi og með þrjá stjórnarmenn af fimm. Það liggur líka fyrir að ríkið rekur Fjármálaeftirlitið, ríkið rekur Samkeppnisefitirlitið og ríkið rekur Bankasýsluna auk þess sem ríkið rekur Landsbankann. Í ljósi þess að ríkið er alls staðar við borðið er mjög mikilvægt að meðalhófs sé gætt gagnvart Vestmannaeyjabæ og öðrum eigendum,“ segir Elliði.

Aðspurður segir Elliði að það muni ráðast af niðurstöðu úttektarinnar hvort farið verði með málið fyrir dómstóla. 

Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja hinn …
Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja hinn 29. mars sl. Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK