Bygging Hörpuhótels hefst í haust

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Company, við líkan af Austurhöfn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdir við Hörpuhótelið eiga að hefjast í haust og stefnt er að opnun þess vorið 2018. Samningar hafa náðst við bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company um byggingaréttinn. 

Carpenter mun reisa 250 herbergja fimm stjörnu hótel á lóðinni og í framhaldinu fela rekstur þess í leiðandi alþjóðlegs hótelrekstraraðila. Samningar um slíkt eru á lokastigi og verður á næstu vikum tilkynnt um niðurstöðu þess ferlis.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í Hörpu í dag þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Company og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, kynntu verkefnið.

Glæsilegasta hótel Reykjavíkur

Carpenter verður leiðandi fjárfestir í verkefninu sem jafnframt á að fela í sér fjárfestingartækifæri fyrir innlenda fjárfesta. Arion banki vinnur að skipulagi fjármögnunar verkefnisins. Carpenter er viðurkenndur rekstraraðili hótelverkefna í Norður-Ameríku og hefur meðal annars unnið með hótelkeðjum líkt og St. Regis, Four Seasons, Marriott, Hyatt og Starwood.

Á fundinum kom fram að hótelið muni hafa að geyma veislu- og fundarsali, fjölda veitingastaða auk heilsulindar. Fullbyggðu er hótelinu ætlað að verða eitt glæsilegasta hótel Reykjavíkur og jafnframt eina fimm stjörnu hótel landsins.

Samið hefur verið við íslensku verkfræðistofuna Mannvit og T.ark-arkitekta um hönnun og stjórnun framkvæmda. 

Friða holuna við Hörpu

Dagur sagði að þróun skipulags og nýtingar gamla hafnarsvæðisins í Reykjavík hefði um alllangt skeið verið mikilvægt viðfangsefni borgaryfirvalda. Uppbygging Hörpu og þróun byggðar á Austurhafnarsvæðinu væri mikilvægur þáttur í að fylgja eftir þeirri stefnumótun að gera borgina að kjöráfangastað fyrir ráðstefnu- og menningarviðburði á alþjóðavísu. Harpa hefði þegar sannað gildi sitt sem segull á slík verkefni en mikilvægt væri að fylgja þeirri velgengni eftir og ljúka uppbyggingu við Austurhöfn. 

Þá benti hann á holuna sem staðið hefur við hlið Hörpu frá því að framkvæmdir hófust á svæðinu og sagði ánægjulegt að framkvæmdir væru loks að hefjast. „Það var alveg á mörkunum að menn færu að friða hana vegna aldurs,“ sagði Dagur léttur í bragði. 

Á fundinum var til sýnis þrívíddarmódel af svæðinu og sagði Dagur það viljandi gert að lokaútlit hótelsins væri hvergi sjáanlegt. Hann sagði að hratt væri nú unnið að lokateikningum.

Fyrsta verkefnið utan Bandaríkjanna

Friedman sagðist mjög spenntur fyrir verkefninu og bætti við að Carpenter hefði unnið að því í um það bil eitt ár. Þá sagði hann fyrirtækið hafa komið að fjölmörgum hótelum í Bandaríkjunum en þetta væri hins vegar fyrsta hótelið erlendis. „Við ætlum að byggja besta hótelið á Íslandi,“ sagði Friedman og bætti við að byggingarsvæðið við Hörpu væri eitt það allra flottasta í heimi.

„Ég hef oft komið til Íslands og elska landið. Konan mín fer í Whole Foods á hverjum degi til þess að kaupa skyr, lambakjöt og lax. Maturinn hér er frábær og fólkið er frábært. Þetta er ein af bestu höfnum í heimi og ein besta borgin,“ sagði Friedman ánægður með landið. „Ég er viss um að við getum byggt frábæra viðbót við þessa fallegu byggingu,“ sagði hann og vísaði til Hörpu.

Þá benti hann jafnframt öllum þeim sem hafa einhverjar hugmyndir fyrir hótelið að hafa samband við Carpenter.

Teikning af Austurhöfn og hótelinu við hlið Hörpu.
Teikning af Austurhöfn og hótelinu við hlið Hörpu. Mynd/T.ark
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka