Í gær fór fram aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í snakkmálinu svokallaða sem Hagar og Aðföng höfðuðu gegn Fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna 59 prósent verðtolls sem lagður er á innflutt kartöflusnakk.
Fyrirtækin telja engar réttlætanlegar ástæður liggja að baki hinni „óhóflega háu tollprósentu.“
Þá telja þau gjaldtökuna brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár og grundvallarreglur stjórnskipunar- og skattaréttar. Að gjaldtakan uppfylli ekki kröfur um málefnalegan grundvöll skattheimtu og brjóti gegn meðalhófi og jafnræði.
Því sé ekki um heimila skattheimtu að ræða, heldur ólögmæta skerðingu á eignarétti og atvinnufrelsi. Talið er að gjaldtakan sé ólögmæt og því beri að endurgreiða hin ofteknu gjöld.
Í málinu er bent á að aðeins tvö fyrirtæki framleiði kartöflusnakk hér á landi; Þykkvibær sem framleiðir Nasl og Iðnmark sem framleiðir Stjörnusnakk. Snakkið er framleitt úr innfluttu hráefni sem er flutt inn á lágum eða engum tollum. „Hinn 59% tollur á innflutt kartöflusnakk verndar því ekki íslenska búvöruframleiðslu (íslenskar kartöflur), heldur vinnslu tveggja fyrirtækja á innfluttu hráefni,“ segir í stefnunni.
Til marks um þetta sé lýsingin á tollflokknum sérstaklega sniðin að framleiðslu þessara sömu fyrirtækja, þ.e. skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h.
Jafnvel þótt talið verði að gjaldtakan sé byggð á málefnalegum grunni telja fyrirtækin að hana þurfi að skoða í samanburði við tollálagningu á sambærilegar vörur. Bent er á að einungis 20 prósent tollur sé lagður á kornsnakk og að munurinn á álagningu varanna sé því tæp 40 prósent.
Þá er enginn tollur lagður á kornsnakk sem flutt er inn frá Evrópusambandsríkjum og getur munurinn því verið tæp 60 prósent en meirihluti kornsnakksins er einmitt fluttur inn þaðan.
Þessi munur á kartöflu- og kornsnakki er sagður fordæmalaus og hvorki þekkjast í nágrannalöndum né í tollskrám WCO og ESB. „Eina rökrétta skýringin sem stefnendur koma auga á er sú að innlend fyrirtæki selja lítið sem ekkert af kornsnakki og stendur því engin ógn af innflutningi þess. Stefndi telur því ekki þörf á því að leggja ofurtoll á kornsnakkið til að koma í veg fyrir innflutning þess, líkt og í tilfelli kartöflusnakksins.“