Mjög hefur færst í vöxt að nýir veitingastaðir sem opnaðir eru hér á landi heiti erlendum nöfnum. Nýleg dæmi eru Dirty Burger and Ribs og nú síðast á Selfossi verður nafni veitingastaðarins Kaktus, sem áður hét Hrói Höttur, breytt í sumar, í Steakhouse surf and turf, grill and bar.
„Guð sé oss næstur!“ nánast hrópaði Haraldur Bernharðsson, varaformaður Íslenskrar málnefndar, þegar blaðamaður sagði honum frá nýju nafngiftinni á Selfossi.
Í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands, kemur fram hjá blaðamanni, ÖG, að Steakhouse surf and turf útleggist á íslensku Steikhúsið haf og hagi.
Haraldur var spurður hvort slík nafngift væri ekki meir við hæfi á veitingastað á Suðurlandi. „Jú, vitanlega væri það meir við hæfi og ég tel að slíkt nafn myndi einnig falla Sunnlendingum mun betur í geð. Raunar held ég líka að það væri hyggilegra upp á viðskiptin að menn sæju sóma sinn í því að hafa nafngiftir á veitingastöðum á íslensku,“ sagði Haraldur.
„Mér finnst þessi þróun alveg af-leit. Segjum bara að ég væri ferðamaður í Toscanahéraði á Ítalíu. Þá myndi ég síst af öllu leita að veitingastað sem héti ensku nafni. Ég býst við því að þeir erlendu ferða-menn sem hingað koma, hafi áhuga á að kynnast því sem íslenskt er og eitt af því er náttúrlega tungumálið.
Þannig finnst mér nafngiftir af þessum toga byggðar á misskilningi. Ég veit ekki hvort hér er um að ræða mállega minnimáttarkennd en ég tel að til mikilla bóta væri að nefna þennan stað á Selfossi og aðra veitingastaði á íslensku,“ sagði Haraldur.
Haraldur segir að nafngiftir íslenskra veitingastaða komi ekki til kasta Íslenskrar málnefndar með formlegum hætti, en vissulega sé ástæða til þess að staldra við og taka þetta til umræðu. Hann sagði að sig minni að eitt sinn hafi verið skylda að skrá fyrirtæki hjá fyrirtækjaskrá undir íslenskum nöfnum og eins hafi það verið regla hér áður fyrr að fyrirtæki í símaskrá hafi heitið íslenskum nöfnum. „Ef mig misminnir ekki hét veitingastaðurinn Hard Rock Cafe, Hart Rokk Kaffi í síma-skránni. En ég held að það séu engar hömlur á þessu lengur,“ segir Haraldur.
Þá bendir Haraldur á að furðulega víða hér á landi séu matseðlar eingöngu á ensku. Það sé sjálfsagt að matseðlar séu á ensku og ýmsum tungumálum, en þau eigi ekki að koma í stað íslenskunnar.