Forstjóri bandarísku greiðsluþjónustunnar Gravity ætlar að hækka lágmarkslaun hvers einasta starfsmanns fyrirtækisins í tæpar átta hundruð þúsund krónur á mánuði, eða 70 þúsund Bandaríkjadali á ári. Þetta ætlar hann að gera með því að skera eigin laun niður um níutíu prósent.
Í samtali við Huffington Post segist Dan Price, stofnandi og forstjóri Gravity, hafa áttað sig á því að hann þyrfti að gera eitthvað fyrir eigin starfsfólk þegar hann var að ræða við vinkonu sína um hækkandi leiguverð og hversu erfitt það væri að halda í það.
Price safnaði 120 starfsmönnum fyrirtækisins saman á mánudaginn og kynnti launahækkunina fyrir þeim. Hjá sumum starfsmönnum þýðir þetta tvöföldun á heildarlaunum.
Til þess að fyrirtækið verði einfaldlega ekki gjaldþrota af þessu verður hækkunin framkvæmd í skrefum fram til ársloka 2017 og munu þeir sem eru með lægri laun en sem nema 70 þúsund dollurum ýmist fá 5 þúsund dollara árlega hækkun eða 50 þúsund dollara hækkun í einu lagi.
Price ætlar að fjármagna launahækkunina með því að skera eigin laun niður úr einni milljón dollara í 70 þúsund dollara og þannig vera á pari við aðra starfsmenn. Þá verður 2,2 milljóna dollara áætlaður hagnaður fyrirtækisins á þessu ári einnig notaður til verksins.
Hann sagðist þó ætla að hækka launin sín aftur þegar hagnaðurinn nær aftur sama marki - 2,2 milljónum dollara.
Í samtali við ABC sagðist hann hafa ákveðið að setja markið við 70 þúsund dollara eftir að hafa lesið rannsókn frá Princeton háskóla sem sýndi að launahækkanir eftir þann þann punkt hefðu ekki marktæk áhrif á hamingju fólks.
Þá hefur Independant eftir honum að hann hyggist aðlaga lífstíl sinn að breyttum tekjum. Það segir hann þó ekki eiga að vera mjög erfitt þar sem hann er einhleypur og á einungis einn hund.
Forstjóralaun í Bandaríkjunum eru að meðaltali um 350 sinnum hærri en hjá meðallaun almennra starfsmanna.