Þrátt fyrir að Uber sé meðal ferskustu nýsköpunarfyrirtækja heims hefur það gripið til einnar elstu hvatningaraðferðarinnar í bókinni. Að velja starfsmann, eða bílstjóra, vikunnar.
Uber byggir einkunnakerfi sitt á stjörnugjöf þar sem bílstjórar geta mest fengið fimm stjörnur. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir hins vegar að héðan í frá muni Uber verðlauna einn bílstjóra með sjöttu stjörnunni í hverri viku um allan heim. Hún verður veitt fyrir framúrskarandi þjónustu þar sem handhafi hennar mun jafnframt fá eitt þúsund dollara gjafakort frá American Express, hatt, verðlaunapening og opinbera viðurkenningu.
Í samtali við Huffington Post segir David Richter, varaforstjóri Uber, að þetta sé gert fyrir bílstjóra sem verðskulda meira en fimm. Markaðsfræðingar virðast þá almennt sammála um að þetta geti eflt bílstjóra og hvatt þá til þess að veita betri þjónustu. Þá sýni þetta viðskiptavinum að fyrirtækið leggi mikið upp úr góðri þjónustu.
Þetta var fyrst gert í Bandaríkjunum í október en frá og með síðustu viku verða bílstjórar vikunnar valdir um allan heim.
Í frétt Huffington Post segir að t.d. hafi einn bílstjóri fengið stjörnuna fyrir að hjálpa manni sem nýlega hafði misst útlim að versla í stað þess að skutla honum einungis í búðina. Þá hafa aðrir verði valdir sem eru einfaldlega með bestu einkunnina og flestar ferðir á sínu svæði.