Ekki er óalgengt að heildarfargjald sé töluvert hærra en það sem birtist í auglýsingum og á heimasíðum flugfélaga vegna ýmissa gjalda sem þarf að greiða áður en hægt er að komast til útlanda.
Til dæmis þurfa farþegar hjá sjö af þeim sextán flugfélögum sem bjóða upp á reglulegar áætlunarferðir frá Keflavík á næstu mánuðum að borga sérstaklega fyrir innritaðan farangur. Töskugjaldið er mishátt og á bilinu 1.730 til 4.990 krónur.
Túristi hefur tekið saman aukagjöldin hjá flugfélögunum sextán þannig að auðveldara er að leggja mat á aukakostnað við ferðina. Tekið skal fram að verðið getur breyst eftir því hvernig flugið er bókað. Umrædd gjöld geta þannig verið innifalin í verði flugfarsins sé pantað gegnum alþjóðlegar bókunarsíður.
Ef einhverjir vilja þá tryggja sér sérstök sæti þarf að greiða sérstaklega fyrir þau hjá meirihluta flugfélaganna. Einnig er vert að hafa í huga að farþegar þurfa oftast að borga helmingi eða tvöfalt hærra verð fyrir þjónustuna ef hún er pöntuð á flugvellinum við brottför en ekki á netinu.
Í samanburðinum má sjá að þar sem innrituð taska er ekki innifalin í fargjaldinu er ódýrast að innrita hana hjá Norwegian, þar sem það kostar á bilinu 1.730 krónur til 2.920 krónur. Það er hins vegar dýrast hjá Wizz annars vegar, þar sem töskugjaldið nemur föstum 4.380 krónum og hins vegar hjá WOW air, þar sem það kostar á bilinu 3.999 til 4.999 krónur.
Hjá tveimur flugfélögum er sérstakt bókunargjald tekið. Hjá Air Berlin nemur gjaldið 1.460 krónum á farþega en hjá WOW air er það 999 krónur á hverja bókun.
Þrjú flugfélög taka þá sérstaka kreditkortaþóknun. Upphæðin er föst hjá Vueling og nemur 1.180 krónum en hjá Norwegian er tekin 1,99 prósent þóknun og hjá Air Greenland 1,25 prósent þóknun.
Þar sem ekki er ókeypis að taka frá sæti er það ódýrast hjá easyJet þar sem það kostar á bilinu 220 til 2.770 krónur. Dýrast er það hins vegar hjá Airberlin á 1.750 til 3.850 krónur.