Isavia hafnar ásökunum um geðþóttaákvarðanir

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Oli Haukur

Í yfirlýsingu sem Isavia hefur sent frá sér segir að ákvörðun um úthlutun á verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi að sjálfsögðu ekki verið byggð á geðþótta heldur hafi hún verið tekin að undangengnu mjög ítarlegu forvalsferli sem var kynnt þátttakendum í upphafi og allir samþykktu.

Líkt og mbl greindi frá í morgun hefur Drífa ehf., sem selur vörur undir merkjum Icewear, stefnt Isavia vegna útboðsins. Í stefnu fyrirtækisins segir m.a. að opinberum aðilum sé ekki frjálst að haga útboðsferlinu að eigin geðþótta heldur verði að haga því í samræmi við ákvæði laga.

Þá segir að Isavia hafi ekki verið skylt að viðhafa útboð til að koma á samningi en hins vegar hafi félagið kosið að nota það fyrirkomulag. Eftir það sé ekki aftur snúið og ákvarðanir verði að vera í samræmi við lög. „Jafnvel þótt talið yrði að samningsferli stefnda teldist ekki útboð í þrengsta skilningi laga þá gilda engu að síður meginreglur útboðsréttar um samningsferlið.“

Ekki útboð

Isavia bendir á að forvalið hafi snúist um leigu á húsnæði sem falli ekki undir lög um opinber útboð. Þetta hefur verið staðfest af kærunefnd útboðsmála. Vísað er til niðurstöðu kærunefndar útboðsmála sem segir að Isavia hafi komið fram sem leigusali í málinu en ekki kaupandi verks í skilningi laga um opinber innkaup. Samningsgerðin félli þar af leiðandi ekki þar undir.

„Við valið voru margir þættir metnir, svo sem þjónusta, vöruframboð, ýmsir fjárhags- og rekstrarþættir auk áherslu á tengingu við Ísland,“ segir í yfirlýsingu Isavia. „Isavia tók á endanum hagstæðasta boðinu í forvalinu í hverjum flokki fyrir sig.“

Í stefnunni segir að Drífu hafi ekki verið veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Isavia vísaði einungis til stigagjafar þegar eftir honum var leitað en gaf hins vegar ekki upp forsendur fyrir stigagjöfinni.

„Varðandi aðgang að gögnum þá hefur Isavia veitt Drífu ehf. aðgang að öllum gögnum málsins utan tilboðsgagna annarra þátttakenda, enda eru það trúnaðargögn sem innihalda viðkvæmar upplýsingar sem lúta að rekstri hvers tilboðsgjafa,“ segir Isavia.

Frétt mbl.is: Ákvörðun Isavia byggð á geðþótta

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK