Linda Pétursdóttir hefur ekkert aðhafst gegn fasteignafélaginu Regin vegna Baðhússins en líkt og greint var frá í desember sagðist Linda vera að kanna réttarstöðu sína vegna húsnæðisins í Smáralind.
Í janúar greindi mbl frá því að Baðhúsið hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Líkamsræktarstöðinni var þá lokað í desember en Linda sagði að rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan fyrirtækinu þegar loforð um afhendingartíma voru svikin auk þess sem húsnæðið hefði verið hálfklárað við afhendingu og iðnaðarmenn hefðu sífellt verið andandi ofan í hálsmálið á viðskiptavinum.
Þá sendi hún frá sér yfirlýsingu sem sagði að hún væri að skoða meintan aðstöðumunn við gerð leigusamnings sem og aðra samningsgerð.
Samkvæmt upplýsingum frá Reginn hefur ekkert heyrst um slíkt frá Lindu. Þá er framkvæmdum að fullu lokið og mun Plié listdansskóli flytja í húsnæðið í maí.
Pilé var áður starfræktur á tveimur stöðum; í Kirkjulundi í Garðabæ og Nethyl í Reykjavík. Plié Listdansskóli býður uppá nám í ballet, jazz, dansfjöri, steppi, modern & broadway dönsum fyrir stráka og stelpur.
Fréttir mbl.is:
Hvalaskoðun í stað Baðhússins
Endurgreiða ekki gjafakortin
Linda Pé kannar réttarstöðu sína
Riftu samningi Baðhússins vegna vanefnda