Starfsfólk verður ekki lengur ráðið til verslunarkeðjunnar Abercrombie & Fitch á grundvelli útlitisins. Þá verða starfsmennirnir ekki lengur berir að ofan.
Þetta er hluti af ímyndarbreytingu fyrirtækisins þar sem meiri áhersla verður lögð á viðskiptavininn en á útlit starfsmanna. Hagnaður Abercrombie dróst saman um 10% á síðasta ári þar sem sala minnkaði í Bandaríkjunum. Nauðsynlegt var því talið að grípa til aðgerða til þess að snúa stöðunni við. „Við horfum til framtíðar en ekki fortíðar og það er fullkomin samstaða um að þessar breytingar séu til góðs,“ er haft eftir Christos Angelides, forstjóra Abercrombie.
Starfsmenn þurfa ekki lengur að klæðast eingöngu Abercrombie fötum og verða héðan í frá kallaðir „vörumerkjafulltrúar“ (e. brand representatives) í stað þess að vera kallaðir fyrirsætur.
Þá á að breyta andrúmsloftinu í búðunum og lækka tónlistina og auka birtuna.
Markaðssetningu verður einnig breytt og verður síður kynferðisleg. Við opnanir nýrra verslana verða starfsmennirnir fullklæddir en ekki berir að ofan líkt og hefur tíðkast. Þá verða fyrirsæturnar á gjafakortum, búðarpokum og í búðunum ekki berar að ofan. Fyrirsætan í auglýsingum rakspírans „Fierce“ frá Abercrombie verður þó enn ber að ofan.
Frétt CNN Money.