Á Facebook síðu Arla eiga sér stað sérkennilegar samræður. Arla hefur verið í umræðunni að undanförnu vegna skyrauglýsinga sem teknar voru upp á Íslandi. Fyrirtækið er hins vegar sænskt og skyrið er framleitt í Þýskalandi. „Hæ allir. Biðst afsökunar á seinu svari - tímamismunurinn hérna á Höfn gerir mér þetta stundum erfitt,“ segir sá sem sér um síðuna.
Arla er í sókn á breska markaðnum með skyrið og voru auglýsingarnar teknar upp í tilefni þess. MS hyggst fara með íslenska skyrið á breska markaðinn í sumar.
Frétt mbl.is: Gæti komið MS vel í Bretlandi
Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS, svarar Arla á Facebook síðu fyrirtækisins, og spyr hvar á Höfn fyrirtækið sé staðsett. Þar sem um smábæ á Íslandi sé að ræða en enginn sé meðvitaður um veru fyrirtækisins á staðnum.
Tilefni samræðnanna var spurning frá breskum viðskiptavini. „Gerið það, látið þetta vera skyrið sem ég borðaði þegar ég vann á Íslandi. Ég hef beðið eftir að það komi til Bretlands.“
Arla staðfestir þá að skyrið sé hið sama. „Ég get staðfest að þetta er sama skyrið og þú fannst þegar þú ferðaðist til fallega heimalandsins míns,“ segir Arla skyr.
Í kjölfarið segist Jón Axel ekki skilja hvers vegna Arla sé að ljúga að viðskiptavinum sínum. „Ég er ábyrgur fyrir sölu á skyri á Íslandi og Arla skyr er ekki íslenskt og ekki það sama og þú fékkst á Íslandi.“
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Arla eru skrifstofur fyrirtækisins í bænum Viby í Svíþjóð.
Aðspurður hvort MS hyggst hafa samband við Arla vegna þessa segir Jón Axel að verið sé að skoða málið. Þá staðfestir hann að Arla skyr hafi aldrei verið selt hér á landi.
Arla er um hundrað sinnum stærra fyrirtæki en Mjólkursamsalan og í fyrra samtali við mbl sagði Jón Axel að Arla hefði varið um fimm milljónum punda, eða um einum milljarði íslenskra króna, í auglýsingaherferðina
Auglýsingarnar má sjá hér fyrir neðan: