„Í dag er allt ennþá til,“ segir Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri KFC á Íslandi, aðspurð um stöðuna á kjúklingnum. Líkt og mbl greindi frá fyrir helgi óttaðist Kristín að síðustu kjúklingabitarnir væru að klárast.
Frétt mbl.is: Kjúklingurinn að klárast á KFC
„Við tökum bara einn dag í einu en eins og staðan er núna lítur vikan ekkert rosalega vel út. Það gæti samt breyst,“ segir Kristín og bætir við að hlutirnir gætu orðið skýrari um miðja viku. „Það er samt rosalegt að mega ekki auglýsa. Núna eru liðnar rúmar tvær vikur síðan við auglýstum síðast og maður þarf nú alltaf að minna á sig öðru hvoru,“ segir hún. „Við erum að reyna að hafa lítið að gera. Hverslags forsendur eru það eiginlega?“ segir Kristín.
Aðspurð hvort traffíkin hafi verið meiri um helgina í kjölfar frétta um mögulegan kjúklingaskort á KFC segist hún hafa orðið vör við það. Svo virðist sem flestir hafi ætlað að tryggja sér síðasta bitann.
Lítið er til af ferskum kjúklingi á landinu öllu og hratt gengur á birgðir af frosnum afurðum. Slátrun hefur nú legið niðri í rúmar tvær vikur, eða frá 20. apríl, þegar verkfall félagsmanna BHM í Dýralæknafélagi Íslands hófst.